Stjórn Strætó bs. ákvað á fundi sínum 16. desember síðastliðinn að hækka gjaldskrá sína.
Verð á tímabilskortum og afsláttarfarmiðum hækka um 10% að jafnaði 1. febrúar næstkomandi. Stök fargjöld haldast hins vegar óbreytt, eða 350 krónur. Hækkunin er liður í stefnu stjórnar þess efnis að auka hlut fargjaldatekna í rekstrarkostnaði Strætó bs. og að gjaldskrá haldi í við þróun almenns verðlags.
Hægt er að kaupa almenn farmiðakort og tímabilskort í þjónustuveri Mosfellsbæjar og íþróttamiðstöðinni að Varmá.
- Barnakort 6 – 12 ára (20 miðar)
- Ungmennakort 12 – 18 ára (20 miðar)
- Fullorðinskort (11 miðar)
- Öryrkja og aldraðir (20 miðar)
- Grænt kort (1 mánuður)
- Rautt kort (3 mánuðir)
Nýbreytni varð á nú um áramót að grunnskólanemum með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu gefst nú kostur á að kaupa nemakort Strætó bs. en hingað til hafa þau einungis verið í boði fyrir nema á framhalds- og háskólastigi.
Líkt og áður hefur komið fram hafa tekjur Strætó bs. af sölu fargjalda nánast staðið í stað frá árinu 2001 í krónum talið. Almennt verðlag hefur á sama tíma hækkað um tæp 80%. Stjórn Strætó telur mikilvægt að fargjöld og fargjaldatekjur fylgi almennum verðlagsbreytingum í landinu þegar til lengri tíma er litið. Þá hefur stjórnin haft það markmið að strætisvagnafargjöld séu í takt við það sem gerist í helstu nágrannalöndum. Þar standa fargjaldatekjur víða undir mun hærra hlutfalli af kostnaði en hér á landi. Algengt er að fargjaldatekjur í nágrannalöndunum standi undir 40-60% af rekstrarkostnaði. Hjá Strætó er samsvarandi hlutfall nú um 25%.
„Farþegum hefur fjölgað mikið undanfarin misseri og mælist fjölgun farþega milli áranna 2010 og 2011 tæplega 20 af hundraði. Strætó bs. hefur brugðist við auknum farþegafjölda með aukinni þjónustu, einkum á annatímum. Fyrirhuguð er enn frekari efling þjónustunnar á þessu ári og áframhaldandi endurnýjun vagnakosts. Þá munu líta dagsins ljós ýmsar tækninýjungar sem munu létta viðskiptavinum lífið við notkun þjónustunnar. Einnig er rétt að minna á að ennþá hefur það stórkostlegan fjárhagslegan sparnað í för með sér að nota strætó frekar en einkabílinn,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs.