Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Neyðarkallinn í ár er hamfarasérfræðingur sem endurspeglar mörg af þeim verkefnum sem björgunarsveitirnar fást við þegar náttúruöflin láta á sér kræla.
Björgunarsveitin Kyndill er í mikilvægu hlutverki í sveitarfélaginu og Mosfellsbær hefur átt farsælt samstarf við sveitina í gegnum árin, meðal annars í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima og skipulag Tindahlaupsins þar sem sveitin sinnir á hverju ári mikilvægum hlutverkum.
Það var Ingibjörg Lára F. Óskarsdóttir hjá björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ sem færði Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra neyðarkallinn 2024. Neyðarkallinn verður seldur til 3. nóvember næstkomandi og rennur allur hagnaður af sölunni til björgunarsveita.