Mosfellsbær hvetur alla Mosfellinga til að taka virkan þátt í heilsu- og hvatningarverkefninu Hjólað í vinnuna sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir nú í tíunda sinn dagana 9. – 29. maí 2012.
Átakið er tvískipt að þessu sinni þar sem annars vegar er um að ræða vinnustaðakeppni þar sem keppt er um flesta þátttökudaga og hins vegar liðakeppni þar sem keppt er um flesta kílómetra. Í Mosfellsbæ er að finna marga skemmtilega hjólastíga og á vef bæjarins má finna hjólreiðakort af hjólaleiðum ásamt korterskorti sem sýnir ferðatíma innanbæjar út frá miðbænum.
Þau sem ferðast milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur geta nýtt sér góðan útivistarstíg meðfram Leiruvogi sem liggur í gegnum Grafarvoginn. Hjólreiðasamgöngur milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur munu síðan verða enn betri á næstu tveimur árum þar sem framkvæmdir eru hafnar við nýjan hjóla- og göngustíg meðfram Vesturlandsvegi sem mun tengja núverandi stígakerfi í Mosfellsbæ við hjólreiðastíga í Reykjavík. Stefnt er að því að fyrri hluti stígarins sem nær að skógræktarsvæðinu við Hamrahlíð verði tilbúinn sumarið 2012 og að hann geti verið fullkláraður sumarið 2013.
Heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna
Hjólað í vinnuna er heilsu- og hvatningarverkefni á vegum almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarátakinu Hjólað í vinnuna. Megin markmið átaksins er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Starfsfólk vinnustaða hér á landi hafa tekið vel við sér því þátttakan hefur margfaldast þau átta ár sem verkefnið hefur farið fram. Í upphafi stóð átakið yfir í eina viku, næstu þrjú ár í tvær vikur og síðustu fimm ár í þrjár vikur. Hjólað í vinnuna mun fara fram dagana 9. – 29. maí 2012.
Hvatningarleikur Rásar 2 og ÍSÍ hefst miðvikudaginn 2.maí og stendur til þriðjudagsins 29. maí og nú þegar hafa 170 vinnustaðir og þar á meðal Mosfellsbær skráð sig til leiks í Hjólað í vinnuna 2012.
Dregið verður úr skráðum liðum dagana 2. til 8. maí og úr innsendum myndum og reynslusögum dagana 9. – 29. maí í Popplandi á Rás 2. Reiðhjólaverslunin Örninn gefur glæsilega vinninga til þeirra liða sem verða dregin út. Allir eru hvattir til þess að drífa sig að skrá sín lið leiks til þess að eiga möguleika á vinningi.
Mosfellsbær ásamt Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hvetja alla vinnustaði til að taka þátt í þessu skemmtilega átakið og hvetja sitt starfsfólk til að taka fram hjólið og gera það klárt.