Yfirlýsing frá bæjarráði Mosfellsbæjar vegna áforma PrimaCare um stofnun einkasjúkrahúss:
Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform forsvarsmanna fyrirtækisins PrimaCare um byggingu einkarekins sjúkrahúss og hótels á Íslandi og fagnar því að PrimaCare sýni Mosfellsbæ áhuga varðandi hugsanlega staðsetningu. Mosfellsbær og forsvarsmenn PrimaCare hafa verið í viðræðum um samvinnu varðandi hið nýja sjúkrahús.
Bæjarráð lýsir jafnframt sérstakri ánægju yfir því að umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi við byggingu og rekstur sjúkrahússins og að áhersla verði lögð á sjálfbærni og samspil við náttúruna og samræmist það jafnframt sjónarmiðum Mosfellsbæjar. Mosfellsbær gaf nýverið út stefnu í umhverfismálum til ársins 2020 sem ber heitið Sjálfbært samfélag sem rímar mjög við stefnu PrimaCare.
Mosfellsbær hefur unnið að stefnumótun þar sem fram kemur að Mosfellsbær verði yfirlýstur heilsubær og leiðandi á sviði endurhæfingar, heilsueflingar og lýðheilsu á Íslandi. Eitt mikilvægasta fyrirtæki Mosfellsbæjar er Reykjalundur en fyrirtækið er í fararbroddi á sviði endurhæfingar í landinu.
Gert er ráð fyrir að hjá PrimaCare muni starfa rúmlega 600 manns og myndi fyrirtæki af þeirri stærðargráðu skipta miklu máli fyrir Mosfellsbæ. Yrði það mikið gleðiefni ef forsvarsmenn PrimaCare kjósa að reisa sjúkrahúsið í Mosfellsbæ.
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ munu gera það sem unnt er til að greiða götu fyrirtækisins svo tryggja megi farsælan starfsvettvang þess í bæjarfélaginu.
Tengt efni
Fundur bæjarstjórnar hefst kl. 14 miðvikudaginn 4. desember 2024
Bæjarráð heimsótti stofnanir
Bæjarfulltrúar í bæjarráði fóru í árlega heimsókn á stofnanir bæjarins í síðustu viku í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025.
Samráð við ungmennaráð í framhaldi af foreldrafundi í Hlégarði