Bæjarráð Mosfellsbæjar ákvað á 1285. fundi sínum að hefja vinnu við framkvæmd jafnlaunaúttekt hjá sveitarfélaginu og var PwC falið það verkefni.
Markmið úttektarinnar var að greina hvort að sveitarfélagið greiði starfsfólki, óháð kyni, sömu laun fyrir sambærileg störf.
Niðurstöður úttektarinnar eru þær að kynbundinn launamunur er hverfandi innan Mosfellsbæjar og sveitarfélagið hlýtur því gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC.
Mosfellsbær er, ásamt einu öðru sveitarfélagi, með næst minnsta mun sem mælst hefur á grunnlaunum hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Af þeim 76 jafnlaunaúttektum sem PwC hefur framkvæmt er Mosfellsbær í 6.-8. sæti þegar litið er til grunnlauna og í 9. sæti þegar horft er til heildarlauna.
Mosfellsbær hefur þegar hafið vinnu við undirbúning jafnlaunavottunar sem er ætlað að festa enn frekar í sessi þau vinnubrögð sem úttekt PwC staðfestir. Miðað er við að jafnlaunavottun verði náð um mitt ár 2018.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:
„Við hjá Mosfellsbæ erum ákaflega stolt af því að hljóta gullmerki Jafnlaunavottunar PwC í ár. Í gegnum tíðina höfum við lagt áherslu á að líta hlutlaust á hvert starf fyrir sig, skilgreina kröfur um ábyrgð og ákvarða laun sjálfstætt út frá hverju starfi fyrir sig og þeirrar hæfni sem krafist er. Gullmerkið er okkur hvatning til að halda áfram að standa okkur vel á þessu sviði og góð viðurkenning fyrir stjórnendur og starfsmenn Mosfellsbæjar.“
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði