Mosfellsbær er tólfta sveitarfélagið til að taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög með UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytinu.
Verkefnið Barnvæn sveitarfélög miðar að því að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga. Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim.
Áhugi sveitarfélaga á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill frá upphafi þess árið 2016 og biðlistar myndast. Í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2019, gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmiðið með samstarfinu er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga á Íslandi að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum.
Það voru Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar sem undirrituðu 28. janúar 2021 samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:
„Við Mosfellingar erum full tilhlökkunar um að takast á við þau úrlausnarefni sem mæta okkur á þeirri vegferð að verða eitt af Barnvænu sveitarfélögum landsins. Við sjáum fyrir okkur þétt samstarf lýðræðis- og mannréttindanefndar og ungmennaráðs við íbúa við að nýta barnasáttmálann sem grunn viðmið í okkar starfi þannig að hann verði sem rauður þráður í starfsemi Mosfellsbæjar. Það er margt í stefnu sveitarfélagsins sem er til þess fallið að efla og styrkja stöðu barna og við höfum tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í okkar stefnumörkun síðustu misserin.“
Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög:
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, við undirritun samstarfssamningsins.