Mosfellsbær, PrimaCare ehf. og Ístak hf. munu í dag rita undir viljayfirlýsingu um byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ sem mun sérhæfa sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum fyrir útlendinga.
Um er að ræða allt að 20-30 þúsund fermetra byggingar og munu skapast 600-1000 störf í bæjarfélaginu. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 13-20 milljarða króna en fjármögnun þess er í höndum svissnesks fjármögnunarfyrirtækis, Oppenheimer Investments AG. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að fyrstu sjúklingarnir verði komi til aðgerða í árslok 2011.
“Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu mikil lyftistöng þetta verkefni verður fyrir samfélagið hér í Mosfellsbæ og nágrenni. Ekki einungis munu skapast hér 600-1000 störf á einu bretti heldur mun verkefnið hafa gífurleg áhrif vegna afleiddrar þjónustu sem af því skapast, jafnt vegna starfsfólks á sjúkrahúsinu og þeim sjúklingum og gestum sem þangað koma,” segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. “Við gerum okkur til að mynda vonir um að hluti starfsfólksins kjósi að setjast að hér í okkar góða bæjarfélagi með öllum þeim kostum sem því fylgja.”
Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare segist afskaplega ánægður með að sjúkrahúsinu hafi verið valinn staður í Mosfellsbæ. “Einstakt umhverfið og metnaðarfull stefna Mosfellsbæjar í umhverfismálum var meðal þess sem átti mikinn þátt í að við völdum Mosfellsbæ enda fellur umhverfisstefna bæjarins mjög vel að okkar markmiðum. Auk þess hefur Mosfellsbær sett stefnu á að vera leiðandi á sviði heilsueflingar, endurhæfingar og lýðheilsu sem er góður jarðvegur fyrir verkefni okkar,” segir Gunnar.
“Við höfum átt mjög gott samstarf við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ sem og Ístak og önnur fyrirtæki í bænum sem munu koma að uppbyggingu sjúkrahússins. Við höfum fundið fyrir breiðri samstöðu innan sveitarfélagsins um þetta verkefni og miklum áhuga,” segir Gunnar.
Unnið er að stofnun Heilsufélags Mosfellsbæjar sem hafa mun það að markmiði að byggja upp þjónustu á sviði heilbrigðismála í bæjarfélaginu. Stefnt er að því að félagið fjárfesti í verkefni PrimaCare og hefur Íslandsbanki veitt ráðgjöf um stofnun þess.
Að sögn Gunnars eru næstu skref þau að koma verkefninu í þann búning að hægt verði að hefja vinnu við fjármögnun. Stefnt er að því að það gerist á næstu vikum og að fjármögnun verði lokið 30. apríl 2010. Fyrsta skóflustungan yrði þá tekin fljótlega að því loknu.
Aðild Ístaks að verkefninu felst í því að fyrirtækið hefur látið PrimaCare í té lóð við Köldukvíslargljúfur við Tungumela í Mosfellsbæ og mun jafnframt koma að byggingu sjúkrahússins í samvinnu við alþjóðlega byggingaverktakann Skanska, sem hefur yfirumsjón með verkinu.
Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks segir: “Ég er ánægður með að fá að taka þátt í þessu stóra verkefni, ekki síst þegar ljóst er að því hefur verið valinn staður í Mosfellsbæ. Lóðin sem við látum undir starfsemina er vel til þess fallin að þar verði byggð upp starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu enda umhverfið með eindæmum fallegt og stutt í náttúruna.”
“Ístak er leiðandi fyrirtæki á íslenskum verktakamarkaði og vel í stakk búið að taka þátt í jafn metnaðarfullu verkefni,” segir Loftur jafnframt.
Nánar um verkefnið
Sigríður Þorsteinsdóttir er stjórnarformaður PrimaCare, Gunnar Ármannsson er framkvæmdastjóri og Finnur Snorrason læknir hefur yfirumsjón með lækningaþætti verkefnisins. PrimaCare er í samstarfi við þrjú virt, alþjóðleg fyrirtæki: Shiboomi, sem sérhæfir sig í frumkvöðla- og markaðsráðgjöf, Skanska, sem er eitt stærsta byggingarverktakafyrirtæki í heimi og Oppenheimer Investments AG, virt svissneskt fjármögnunarfyrirtæki. Þá standa yfir viðræður við leiðandi íslensk fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu þar á meðal Orkuhúsið.
Markmiðið er að setja á fót spítala sem sérhæfir sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum. Stærsti hluti sjúklinganna mun að öllum líkindum koma frá Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum frá PrimaCare eru nú um milljón Bandaríkjamanna á biðlista eftir aðgerðum sem þessum og eru að hefjast viðræður við bandarísk tryggingafélög og sjúkrahús um að taka á móti sjúklingum þaðan.
Gert er ráð fyrir að starfsemin geti skilað allt að 10.000 ferðamönnum hingað til lands á ári hverju og yfir 10 milljörðum í gjaldeyristekjur. Gert er ráð fyrir því að með hverjum sjúklingi komi einn til tveir gestir og er því einnig gert ráð fyrir 200 herbergja hóteli, veitingastöðum og annarri afþreyingu í byggingaklasanum.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði