Nú er sumarið loksins komið og grunnskólarnir um það bil að ljúka störfum þennan veturinn.
Fyrir okkur í Vinnuskólanum þýðir þetta að nú förum við að taka á móti ungmennunum okkar í vinnu við ýmis mikilvæg verkefni innan bæjarmarkanna. Vinnuskóli Mosfellsbæjar hefst 11. júní og þá má gera ráð fyrir að sjá unga fólkið okkar á götum úti að hreinsa og snyrta bæinn okkar.
Mikilvægi Vinnuskólans
Vinnuskólinn er vinnustaður, Vinnuskólinn er forvörn og Vinnuskólinn er skóli. Mikilvægi hans er því óumdeilt og margþætt. Þar taka margir sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum þar sem leitast er við að kenna meðal annars ný vinnubrögð, hvað það þýðir að vera í vinnu, mikilvægi þess að mæta á réttum tíma, að vinna með öðrum, sýna öðrum tillitssemi og virðingu. Einnig hvaða réttindi og skyldur fylgja því að vera starfsmaður fyrirtækis. Sem launafólk læra þau á sín réttindi og skyldur, þau fá launaseðla, þau fá sína kaffiog matartíma, sem oft þarf að taka úti undir berum himni, ekki í hlýrri kaffistofu eins og mörg okkar.
Vinsamlega hafið í huga, þegar þið sjáið þau sitja saman í hóp að hlæja og skemmta sér að þá eru góðar líkur á að þau hafi unnið sér þann tíma inn með góðri vinnu, eða er jafnvel eru þau í sínum lögbundna kaffi- eða matartíma.
Fyrir stóran hluta af starfsmönnum Vinnuskólans er þetta fyrsta skiptið þeirra á vinnumarkaðinum. Sýnum þeim og störfum þeirra virðingu og tökum vel á móti þeim.
Bæjarfélagið á þeim heilmikið að þakka því að ekki bara fegra þau bæjarfélagið með sinni glaðværu, skemmtilegu og litríku tilveru heldur hjálpa þau okkur að halda því hreinu, fallegu og grænu og fyrir það ber að þakka.
Njótið sumarsins.
F.h. starfsmanna Vinnuskóla Mosfellsbæjar
Edda Davíðsdóttir
Tómstundafulltrúi Mosfellsbæjar
Tengt efni
Vinnuskóla lokið þetta sumarið
Regnbogagangbraut í Þverholtinu
Opnað aftur fyrir umsóknir í Vinnuskóla Mosfellsbæjar sumarið 2021
Opnað hefur verið aftur fyrir umsóknir í Vinnuskóla Mosfellsbæjar fyrir sumarið 2021.