Föstudaginn 16. febrúar kl. 16 – 18 opnar Sæunn Þorsteinsdóttir einkasýningu sem ber heitið Landbrot í Listasal Mosfellsbæjar.
Sæunn fæddist í Reykjavík í mars 1967. Hún er Mosfellingur í móðurætt og höfuðborgari í föðurætt og hefur síðustu níu árin búið í Miðdal í Mosfellssveit.
Sæunn útskrifaðist úr textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1993 með málun og teikningu sem valfög og hefur verið viðloðandi myndlist síðan.
Á þessari fimmtu einkasýningu sinni mun Sæunn aðallega sýna lágmyndir unnar úr landakortum. Um vinnuferlið segir Sæunn: „Ég handleik hvern kortabút, slétta og brýt, staldra við nöfn og staði, kræki saman pappírsbútum, lími eða sauma svo úr verður nýtt landslag. Ég reyni að gera ekki upp á milli landshluta og leyfi afskekktum annesjum, eyðisveitum, malarflákum og firnindum að njóta sín til jafns við Þingvelli og fjalladrottningar.“
Sýningin Landbrot stendur út 23. mars, aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Tengt efni
Húsfyllir á opnun jólalistaverkamarkaðar í Listasal Mosfellsbæjar
Listamarkaður í desember 2024
Listasalur Mosfellsbæjar kallar eftir listafólki til að taka þátt í jólamarkaði 2024.
Nafnasamkeppni Listasalar Mosfellsbæjar