Í kjölfar jóla og áramóta fellur til mikið magn af ýmiskonar sorpi sem ekki fellur til dags daglega, s.s. jólapappír og skoteldaúrgangur.
Ekki er alltaf skýrt hvað má fara í bláu endurvinnslutunnuna sem nú stendur við hvert heimili. Allur jólapappír og pappírsúrgangur utan af leikföngum og jólagjöfum má fara í bláu endurvinnslutunnuna. Ef um mikið magn er að ræða má einnig fara með pappírinn í pappírsgáma á endurvinnslustöð Sorpu bs. við Blíðubakka.
Úrgangur frá skoteldum, t.d. brunnar skottertur, má hins vegar ekki setja í bláu endurvinnslutunnunar, þótt um sé að ræða úrgang úr pappa. Í skoteldum getur verið eftir talsvert magn af púðri og öðrum óæskilegum efnum sem ekki mega fara í pappírsendurvinnslu. Slíkan úrgang ber því að setja í almennt sorp, eða skila beint á endurvinnslustöðvar Sorpu bs. ef um mikið magn er að ræða. Gæta þarf þess að ekki sé um ósprungna skotelda að ræða en þeim skal skila í spilliefnamóttöku á endurvinnslustöðvum Sorpu bs.
Íbúar eru einnig hvattir til að hreinsa upp leifar af skoteldum í sínu nánasta umhverfi en starfsmenn þjónustumiðstöðvar Mosfellsbæjar munu einnig koma að hreinsun eftir því sem kostur er.