Innviðir fyrir hleðslubúnaðinn verða byggðir upp á sjö stöðum í landi bæjarins eða á lóðum tengdum stofnunum sveitarfélagsins.
Þeir staðir sem um ræðir eru miðbær við bæjarskrifstofur, Helgafellsskóli, Krikaskóli, Golfskálinn og aðstaða skógræktarfélagsins við Úlfarsfell.
Í upphafi verður settur upp einn hleðslubúnaður á hverjum stað sem annar tveimur hleðslustæðum en gert er ráð fyrir að hleðslustæðum geti fjölgað í fjögur til átta, mismikið eftir aðstæðum. Þjónustuaðilar munu selja hleðsluþjónustu til rafbílaeigenda, reka viðskiptakerfi, greiða dreifingarkostnað rafmagns og annast rekstur búnaðarins.
Horft til fyrri orkuskipta við undirritun
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitu Veitna, undirrituðu samkomulagið í morgun við útilistaverkið Hundraðþúsundmilljón tonn af sjóðheitu vatni á torginu við Þverholt í Mosfellsbæ. Verkið, sem er eftir Kristin E. Hrafnsson, var reist í tilefni 100 ára hitaveitu á Íslandi árið 2008. Það er við hæfi að horfa til fyrri orkuskipta, þegar snúið var frá kolum og olíu yfir í hitaveitu, og þess hversu mikið þau bættu lífsgæði þegar unnið er að orkuskiptum dagsins í dag, frá jarðefnaeldsneyti yfir í umhverfisvænt rafmagn.
Auðvelda bæjarbúum að draga úr losun
Bæði Veitur og Mosfellsbær hafa sett sér metnaðarfull og nauðsynleg loftslagsmarkmið og aðgerðaáætlanir til að ná þeim. Auk eigin starfsemi ná áætlanir þeirra til að sporna við hlýnun jarðar einnig til þess að auðvelda almenningi að draga úr sinni losun. Umhverfisvænni samgöngur – að hjóla, ganga, nýta almenningssamgöngur eða aka á bílum sem ganga fyrir hreinni orku – eru þar lykilatriði.