Ríflega 200 gestir mættu á sögukvöld í félagsheimilinu Hlégarði fimmtudagskvöldið 30. mars.
Umfjöllunarefnið var heita vatnið í Mosfellssveit enda er saga jarðhitanotkunar í sveitarfélaginu athyglisverð, bæði hvað varðar húshitun, ylrækt og sundiðkun.
Jón Magnús Jónsson alifuglabóndi á Suður-Reykjum, Gísli Jóhannsson garðyrkjubóndi í Dalsgarði og Bjarki Bjarnason rithöfundur sögðu lipurlega frá og vörpuðu upp myndum. Tóku gestir í sal virkan þátt í umræðum.
Félagar úr Karlakór Kjalnesinga tóku lagið og boðið var upp á kaffi og með því í hléi.
Mikil ánægja var með kvöldið. Voru viðstaddir á einu máli um að viðburð af þessu tagi þyrfti að bjóða upp á aftur sem fyrst, enda væri af nógu af taka í blómlegri sögu sveitarinnar.
Sögukvöldið var síðasti viðburðurinn í Menningarmars í Mosó, verkefni á vegum menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar sem hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og hjálpa þeim sem að því standa að kynna sig. Í heild var um 15 viðburði að ræða í mars og við undirbúning og framkvæmd þeirra hefur skapast reynsla sem nýtt verður til frekari afreka.
Mynd 1: Jón Magnús á Reykjum, Gísli í Dalsgarði og Bjarki á Hvirfli.
Mynd 2: Aftari röð: Bjarki, Jón Magnús, Gísli, Hilmar Gunnarsson og Kristján Erling Jónsson. Fremri röð: Hrafnhildur Gísladóttir og Birna Mjöll Sigurðardóttir