Mosfellsbær minnir á hreinsunarátak sem er dagana 12. apríl til 3. maí.
Íbúar eru hvattir til að huga að umhverfinu og hreinsa í kringum hús sín og næsta umhverfi enda vorið á næsta leiti.
Hreinsun gróðurs og lóða
Meðan á hreinsunarátakinu stendur er gott tækifæri fyrir íbúa að taka til hendinni í garðinum og snyrta runna og beð og eru þeir sérstaklega hvattir til að klippa hekk og tré sem ná yfir gangstéttar og stíga, en þetta hefur verið vaxandi vandamál undanfarin ár.
Gámar fyrir garðaúrgang verða aðgengilegir á þessu tímabili í hverfum bæjarins á eftirtöldum stöðum:
- Holta- og Tangahverfi – Neðan Þverholts (milli Akurholts og Arnartanga)
- Höfða og Hlíðahverfi – Vörubílastæði við Bogatanga
- Teiga- og Reykjahverfi – Skarhólabraut ofan Reykjavegar
- Hlíðartúnshverfi – Við Aðaltún
- Helgafellshverfi – Efst í Brekkulandi
- Leirvogstunga – Á afleggjara að Kiwanishúsi
- Mosfellsdalur – Á bílastæði við Þingvallaveg
Gatna- og stígahreinsun
Á þessu tímabili mun einnig fara fram þvottur og sópun gangstétta og gatna bæjarins. Í fyrstu verða stofngötur og stígar ásamt stofnanaplönum sópaðar og í framhaldi verður farið inn í hverfi bæjarins og verða merkingar settar á áberandi staði áður en sú vinna hefst. Til að þetta verði sem best gert þurfum við á aðstoð íbúa að halda með því að leggja ekki ökutækjum eða öðrum farartækjum á götunum eða gangstéttum meðan á hreinsun stendur.
Hreinsun á opnum svæðum
Farið var í hreinsunarátak á opnum svæðum bæjarins og meðfram nýbyggingarsvæðum fyrr í þessum mánuði. Afturelding og skátafélagið Mosverjar tóku vel til hendinni og stóðu að venju við hreinsunina ásamt starfsmönnum Mosfellsbæjar.
Allir íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að taka þátt í hreinsunarátaki Mosfellsbæjar og hjálpast að við að gera bæinn fallegan og snyrtilegan fyrir sumarið.
– Umhverfissvið Mosfellsbæjar