Bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar hafa verið staðsettar í Kjarna, Þverholti 2 frá árinu 1998. Starfssemi bæjarskrifstofa er á hæðum 2., 3. og 4.
Rakavandamál og leki hafa komið í ljós í húsnæðinu síðustu misserin, en rakinn hefur einna helst haft áhrif á heilnæm loftgæði fyrir starfsfólk bæjarskrifstofu sem staðsett er á 3. hæðinni.
Eftir ítarlega úttekt og sýnatöku á vegum Eflu hefur komið í ljós að ekki er hægt að komast hjá því að fara í viðgerðir á þessum rakaskemmdum og eru flutningar á þeirri starfsemi sem tilheyrir 3. hæðinni fyrirhugaðir. Ekki er útséð með að sambærileg vandkvæði geti verið á öðrum hæðum einnig, en frekari sýnataka er áformuð á þeim hæðum á næstunni.
Flutningarnir munu eiga sér stað á fimmtudaginn 16. mars og eru tímabundnir, en ráðgert er að lagfæringar á 3. hæðinni hefjist á næstu dögum og taki um 3 mánuði.
Fjölskyldusviðið mun flytja tímabundið í rými á bókasafni Mosfellsbæjar. Það rými hefur hingað til verið notað af skólafólki til lestrar og lærdóms. Skiljanlega mun það þýða rask fyrir þá nemendur sem nýtt hafa sér þessi rými en við munum vinna að því að búa þannig í haginn að skólafólk eigi eftir sem áður aðgengi að svæði til að lesa og læra á bókasafninu.
Fræðslu- og frístundasvið mun færast í rými á 1. hæð þar sem Íslandsbanki var áður til húsa.
Vegna umræddra flutninga mun starfsemi þessara sviða raskast að einhverju leyti á fimmtudaginn. Það er von okkar að bæjarbúar sýni þessum tilfærslum skilning en skiljanlega er okkur mikið kappsmál að vinna að því að búa starfsfólki okkar heilsusamlegt vinnuumhverfi.