Í tilefni af samgönguviku verður í dag, föstudaginn 18. september, sett upp hjólaþrautabraut á Miðbæjartorgi og boðið upp á sýningu BMX landsliðsins í hjólreiðum.
Hjólaþrautabrautin verður sett upp á Miðbæjartorginu kl. 16:30-18:30.
Landslið BMX hjólreiðakappa mun mæta á staðinn og sýna listir sýnar og öllum síðan boðið að leika sér á hjólaþrautabrautinni og sýna hvað þau geta.
Á morgun, laugardaginn 19. september, er hjóladagur fjölskyldunnar þar sem hjólalestir úr hverfum höfuðborgarsvæðisins hjóla saman niður að Ráðhúsi Reykjavíkur. Tilgangurinn er sá að vekja athygli á áhrifum aukinnar umferðar í þéttbýli og hvetja til breyttra og betri samgöngumáta, og sérstaklega aukinnar notkunar reiðhjóla.
Þátttakendur munu hittast á völdum áfangastöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem reyndir hjólreiðamenn munu stýra hjólalestum í Nauthólsvík. Borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu munu hittast á reiðhjólum í Nauthólsvík og hjóla ásamt hópnum í Ráðhús Reykjavíkur þar sem boðið verður upp á hressingu og uppákomur af ýmsu tagi.
Hjólalestinn frá Mosfellsbæ fer frá Miðbæjartorginu kl. 11:30, hjólar á hjólastígum meðfram ströndinni og sameinast hjólalestinni í Grafarvogi á leið sinni í Elliðaárdal, þar sem Orkuveita Reykjavíkur býður upp á hressingu í Minjasafni Orkuveitunnar á leiðinni niður í Nauthólsvík.