Kjörnir fulltrúar ásamt sviðsstjórum velferðar- og fræðslusviðs drógu hinsegin fána að húni við Kjarna í dag í tilefni Hinsegin daga.
Hefð hefur skapast fyrir því undanfarin ár að flagga hinsegin fánanum og er markmiðið með því að sýna stuðning og opna á mikilvæga umræðu um hinsegin málefni og mannréttindi almennt.
Hinsegin dagar fara fram dagana 6. – 11. ágúst með ótal viðburðum og verður einn þeirra fimmtudaginn 8. ágúst kl. 16:00 – 17:00 á bókasafni Mosfellsbæjar. Viðburðurinn er uppistand um hinsegin fána og mikilvægi þeirra og ber nafnið Pláss fyrir alla. Ókeypis er inn á viðburðinn og öll velkomin.
Mosfellsbær skrifaði sumarið 2023 undir samstarfssamning við Samtökin ´78 um fræðslu, ráðgjöf og stuðning við nemendur, aðstandendur þeirra og starfsfólk sveitarfélagsins sem starfar með börnum og ungmennum. Mikilvægt er að bregðast við áreitni, hatursorðræðu og ofbeldi sem samtökin hafa bent á með aukinni umræðu og fræðslu og vill Mosfellsbær stíga þar nauðsynleg skref öllum til heilla og í takti við menntastefnu sveitafélagsins. Leiðarljós og grunnstef menntastefnu Mosfellsbæjar „Heimurinn er okkar“ er að öll fái notið sín og að unnið skuli að velferð allra barna og ungmenna með jákvæðum samskiptum og valdeflingu.