Hilmar Elísson hefur verið útnefndur Mosfellingur ársins 2019 en hann bjargaði sundlaugargesti frá drukknun í Lágafellslaug.
Hilmar er meðlimur í karlaþreki World Class og er fastagestur í Lágafellslaug. Hilmar var að synda í lauginni að lokinni æfingu þann 28. janúar 2019 þegar hann kemur auga á mann á botninum og sá strax að ekki var allt með felldu.
„Ég kafaði eftir manninum, það tókst ekki í fyrstu tilraun en í annarri tilraun náði ég til hans. Ég kallaði svo á hjálp við að koma manninum upp á bakkann,“ segir Hilmar sem var svo sannarlega réttur maður á réttum stað.
„Það var heppilegt að á staðnum var maður sem starfað hefur sem slökkviliðsmaður í fjöldamörg ár og kunni vel til verka í svona aðstæðum. Okkur tókst að koma manninum upp á bakkann og þá hófust strax lífgunartilraunir. Það leið allavega mínúta þar til hann fór að sýna smá lífsmark. Sjúkraflutningamennirnir voru fljótir á staðinn enda gott að vita af þeim í nágrenninu,“ segir Hilmar en nýlega opnaði slökkvistöð við Skarhólabraut, steinsnar frá Lágafellslaug.
Hilmar Gunnarsson, ritstjóri Mosfellings, afhendir Hilmari Elíssyni viðurkenninguna.
Hilmar segir viðbrögðin hafa verið ósjálfráð og sjokkið hafi komið eftir á. „Þetta er ekki skemmtileg upplifun en það var gott að allt fór vel en allir aðilar sem komu að þessu, starfsmenn og aðrir, stóðu sig með prýði. Ég var bara einn hlekkur í keðju sem vann gott verk.“
Tengt efni
Dóri DNA Mosfellingur ársins 2023
Mosfellingur ársins 2023 er skemmtikrafturinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Halla Karen valin Mosfellingur ársins 2022
Mosfellingur ársins 2022 er Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttafræðingur og formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Elva Björg valin Mosfellingur ársins 2021
Mosfellingur ársins 2021 er Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ, en bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu.