Verkfræðistofan EFLA hefur lokið vinnu við heildarúttekt á húsnæði Varmárskóla en verkfræðistofan hefur verið samstarfsaðili Mosfellsbæjar við rannsóknir á rakaskemmdum í Varmárskóla.
Á nokkrum stöðum þarf að fjarlægja rakaskemmd byggingarefni innandyra samhliða endurbótum á ytra byrði. Því vinna EFLA og umhverfissvið Mosfellsbæjar að viðbótum við viðhaldsáætlun Varmárskóla. Verktökum með sértæka þekkingu á vinnubrögðum við viðgerðir á rakaskemmdu húsnæði verða fengnir í verkefnið og standa viðræður við þá nú yfir.
Niðurstöður rannsóknar EFLU leiðir fram að ekki er þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans en að fara þarf í frekari endurbætur en þegar hefur verið tekin ákvörðun um.
Ástand húsnæðis Varmárskóla sambærilegt eða betra en búast mátti við.
Í heildarúttekt EFLU kemur fram að það er einkum eldri hluti skólans sem þarfnast endurbóta en ástandi nýrri húshluta er í samræmi við það sem sérfræðingar EFLU hafa séð í áþekkum verkefnum.
Að mati EFLU hafa þær aðgerðir og endurbætur sem farið hafa fram síðustu tvö ár skilað Varmárskóla betri húsakosti. Enn eru þó nokkur viðfangsefni til staðar og heildarúttektin er góð leiðsögn um æskileg næstu skref.
Niðurstöður heildarúttektar EFLU verða nýttar af Mosfellsbæ til að forgangsraða aðgerðum og mun bærinn sækjast eftir leiðbeiningum þeirra um verklag við endurbæturnar.
„Í heildarúttektinni var farið ítarlega yfir starfsrými og heildstætt mat á öllum þeim gögnum sem aflað var mynda úttektina. Ekki er unnt að taka einstaka mælingar og fjalla um þær einangrað og draga ályktun um ástand húsnæðis á þeim grunni. Við hvetjum fólk til þess að kynna sér efni úttektarinnar og spyrja fulltrúa EFLU á kynningarfundi um efni hennar. Þannig er DNA sýnataka eitt form gagna sem saman mynda safn vísbending sem er metin í samhengi við alla aðra þætti sem eru til skoðunar við heildarúttekt. Sérhver mæling og skoðun er því vísbending sem er eingöngu eitt púsl af mörgum í því púsluspilinu sem gefur okkur heildarmynd af ástandi húsnæðis. Auk DNA sýna og loftsýna er rakamælt, fagþekking skoðunaraðila lögð til grundvallar og sýnataka úrbyggingarefnum nýtt til að einangra rakaskemmdir og styðja þannig við mat á umfangi. Mestu skiptir þó hvað er gert í kjölfar úttektar og hvernig er að því staðið.“ segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir hjá EFLU.
Kynning á heildarúttekt EFLU
Heildarúttekt EFLU var kynnt fyrir skólastjórum Varmárskóla, starfsmönnum skólans og stjórnendum Mosfellsbæjar þann 7. júní. Skýrsla EFLU var kynnt í bæjarráði þann 13. júní og skólasamfélaginu í heild sama dag á opnum fundi í Varmárskóla sem jafnframt var streymt á Youtube rás Mosfellsbæjar.
Vegna þess að skóla hefur verið slitið var ákveðið að halda tvo fundi fyrir foreldra og forráðamenn barna í Varmárskóla og verður seinni fundurinn haldinn 19. júní kl. 18:00 í Varmárskóla.