Samkomulag hefur verið gert milli ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk sem byggir á tillögum starfshóps sem félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði í júlí 2022 um kostnaðarskiptingu á þeirri þjónustu milli ríkis og sveitarfélaga. Aðilar voru sammála um að hækkun útsvarstekna væri hluti af framlögum jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Samhliða þessum breytingum mun ríkið lækka tekjuskattsprósentur svo breytingin felur ekki í sér auknar álögur á íbúa.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti því í dag 21. desember 2023 á 841. fundi sínum með 11 atkvæðum fyrirliggjandi tillögu um að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2024 hækki um 0,23% og verði 14,97% á tekjur einstaklinga, sbr. ný samþykkta breytingu á 1. mgr. 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.
Með þessu samkomulagi aukast tekjur sveitarfélaga á landsvísu um sex milljarða árið 2024 til viðbótar við 5,7 milljarða króna sem fluttust frá ríki til sveitarfélaga árið 2022. Heildarhækkunin nemur því tæplega 12 milljörðum króna.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er þetta mjög jákvæður áfangi í baráttu sveitarfélaga fyrir auknu framlagi í málaflokkinn og gerir Mosfellsbæ kleift að halda áfram að bæta þjónustu við fatlaða íbúa og tryggja uppbyggingu nýrra búsetukjarna.
Aðilar samkomulagsins eru sammála um að gera þurfi breytingar á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk til þess að tryggja sambærilega þjónustu milli sveitarfélaga og betri nýtingu fjármagns. Einnig var samþykkt að stofnaður verði sérstakur framtíðarhópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem vinna muni að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk til þess að auka gæði og hagkvæmni.