Kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason hefur verið útnefndur Mosfellingur ársins 2016 af bæjarblaðinu Mosfellingi.
Guðni Valur hefur tekið gríðarlegum framförum í greininni þau þrjú ár sem hann hefur stundað kringlukast af fullum krafti. Áður hafði Guðni æft aðrar greinar í frjálsum, golf, körfubolta og ýmsar íþróttir sem krakki.
„Það skipti í rauninni ekki máli í hvaða grein maður var þegar maður var yngri en langskemmtilegasta mótið var Goggi Galvaski sem haldið var hérna í Mosó,“ segir Guðni Valur.
Sækir reynslu til besta kastara landsins
Guðni Valur æfði með Aftureldingu á sínum yngri árum en keppir nú fyrir hönd ÍR undir dyggri handleiðslu Péturs Guðmundssonar. Þar sækir Guðni Valur mikla reynslu og þekkingu hjá einum besta kastara sem Íslendingar hafa eignast.
Guðni Valur kastaði 60,45 m á Ólympíuleikunum í sumar og lenti í 21. sæti af 35 þátttakendum. Þá gerði hann góða ferð til Finnlands á árinu þar sem hann landaði Norðurlandameistaratitli í flokki 23 ára og yngri. Hann vann einnig gull á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru á Möltu.
Ætlar sér stóra hluti á árinu
Guðni Valur setur markið hátt á árinu og ætlar sér að komast á Heimsmeistaramótið í sumar og vinna Evrópumeistaramótið í sínum aldurshópi. Lágmarkið fyrir HM er 65 m en besti árangur Guðna er 63,5 m. „Ég á nóg inni og ætla mér stóra hluti.“ Þá er stefnan tekin á Smáþjóðaleika og fjölda annarra móta og keppnisferða á árinu.
Guðni Valur var á dögunum útnefndur frjálsíþróttakarl ársins og hlaut einnig titilinn íþróttakarl ÍR 2016. „Það er hrikalega skemmtilegt að bæta nafnbótinni Mosfellingur ársins við í safnið og mun ég bera titilinn stoltur,“ segir þessi framúrskarandi íþróttamaður sem vert verður að fylgjast með í náinni framtíð.
Tengt efni
Dóri DNA Mosfellingur ársins 2023
Mosfellingur ársins 2023 er skemmtikrafturinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Halla Karen valin Mosfellingur ársins 2022
Mosfellingur ársins 2022 er Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttafræðingur og formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Elva Björg valin Mosfellingur ársins 2021
Mosfellingur ársins 2021 er Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ, en bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu.