Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í sumar eftir sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum til að taka þátt í þróunarverkefnum sem ganga út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Mosfellsbær og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðis (HH) voru meðal þeirra sveitarfélaga og heilbrigðisstofnanna sem voru valin til að taka þátt.
Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.
Sigurbjörg Fjölnisdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Mosfellsbæjar, segir að það sé sannarlega mikið gleðiefni að hafa verið valin til þátttöku og er þess fullviss um að verkefnið geti orðið lyftistöng fyrir þjónustu fyrir eldri borgara á svæðinu.
Þróunarverkefnin eru hluti af aðgerðaáætluninni Gott að eldast en með henni taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Markmið Gott að eldast er að tryggja eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flest þeirra séu þátttakendur í samfélaginu – sem allra lengst og á þeirra eigin forsendum.