Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2012 var lagður fram í bæjarráði í dag og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2012 og var rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði um 612 milljónir sem er um 10% af tekjum. Niðurstaðan er í samræmi við fjárhagsáætlun. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var afgangur af rekstri bæjarins um 29 milljónir eða 0,4% af tekjum.
Hófleg skuldsetning
Kennitölur úr rekstri bera vott um trausta stöðu bæjarsjóðs. Veltufé frá rekstri eru 676 milljónir sem eru 11% af rekstrartekjum og framlegð frá rekstri er 15%. Skuldahlutfall er 125% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Eigið fé í árslok nemur 3.921 milljónum og er eiginfjárhlutfall 31%.
68% af skatttekjum fara í fræðslu-, félags- og íþróttamál
Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 2.343 milljónir á árinu 2012 eða um 49% af skatttekjum. Til félagsþjónustu var veitt 1.015 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og æskulýðsmál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 563 milljónum á árinu 2012.
Mikil uppbygging í Mosfellsbæ
Um 767 milljónum var varið í framkvæmdir á árinu 2012 sem er nær tvöföldun frá fyrra ári. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging nýs 30 rýma hjúkrunarheimils sem verður tekið í notkun innan tíðar. Til þeirrar framkvæmdar runnu um 276 milljónir á árinu en áætlaður byggingarkostnaður er um 811 milljónir. Rúmar 192 milljónir fóru í gatnaframkvæmdir og einnig var talsverðu fjármagni varið í viðhald og endurbætur á skólahúsnæði og íþróttaaðstöðu í bænum. Þrátt fyrir þessar miklu framkvæmdir í sveitarfélaginu lækkar skuldahlutfall milli ára.
Reikningurinn verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 17. apríl og til síðari umræðu 30. apríl. Bæjarstjórnarfundir eru alltaf opnir og geta íbúar því mætt og fylgst með umræðum.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði