Þróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar var afhent á Bókasafni Mosfellsbæjar síðastliðið þriðjudagskvöld að viðstöddu fjölmenni.
Þar fór fram menningardagskrá undir yfirskriftinni Dalskronika en kvöldið var liður í Menningarvori sem nú fer fram í Mosfellsbæ. Það var einstaklega vel við hæfi að afhenda viðurkenninguna þetta kvöld enda er verkefnið sem um ræðir vefur um Innansveitarkroniku. Vefurinn inniheldur upplestur Halldórs Laxness á bókinni og fleira ítarefni. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem verki Halldórs Laxness er miðlað með þessum hætti.
Ólöf Þórðardóttir formaður Þróunar- og ferðamálanefndar Mosfellsbæjar afhenti Guðnýju Dóru Gestsdóttur forstöðumanni Gljúfrasteins viðurkenninguna.