Afmælisdagskrá sem hófst á opinberri heimsókn Forseta Íslands þann 9. ágúst lýkur nú með okkar vinsælu bæjarhátíð.
Íbúar koma saman eftir gott sumarfrí, sýna sig og sjá aðra. Dagskrá helgarinnar er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Að venju eru það íbúar bæjarins sem bjóða heim og bera veg og vanda af hátíðinni. Sífellt bætast nýir garðar við þar sem boðið er upp á skemmtanir. Að bjóða í garðinn sinn er sérstaða Túnsins en auk þess verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á laugardagskvöld, götugrill og Pallaball.
Frítt verður í leið 15 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.
Heilsueflandi hátíð
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og íþróttatengdir viðburðir eru nokkrir. Fyrst ber að nefna Tindahlaup Mosfellsbæjar sem er samstarfsverkefni bæjarins og Björgunarsveitarinnar Kyndils. Blakdeild Aftureldingar hefur einnig slegist í hópinn og mun starfa við mótið í ár.
Nýverið var gerður samningur við Jeep sem verður aðalstyrktaraðili hlaupsins. Enn er stefnt að því að fjölga þátttakendum og gaman að segja frá því að Guðni Th. Jóhannesson mun taka þátt í ár. Lagt er upp úr því að hafa umgjörðina veglega og markmiðið er að hlaupið verði eitt af vinsælustu náttúrhlaupum ársins. Fellin í kringum Mosfellsbæ, nálægðin við náttúru og þéttbýli gera hlaupið einstakt og aðlaðandi fyrir metnaðarfulla hlaupara bæði byrjendur og lengra komna.
Nýjung í íþróttatengdum viðburðum er fjallahjólakeppnin Fellahringurinn sem fer fram á fimmtudagskvöld. Skipulagning þess er í höndum heimamanna og byggir að sjálfsögðu einnig á náttúru Mosfellsbæjar og einstakri aðstöðu til útivistar.
Margir sem leggja sitt af mörkum
Síðustu vikur hefur bæjarbúum staðið til boða að njóta þess besta sem bærinn hefur upp á að bjóða. Frábær þátttaka hefur verið í afmælisdagskránni og ljóst að Mosfellingar kunna vel við að skemmta sér saman.
Mosfellsbær vill koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að gera forsetaheimsóknina þann 9. ágúst eftirminnilega.
Einstaklingar, félagasamtök og forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa lagt hönd á plóg við að gera bæjarhátíðina Í túninu heima að þeirri stóru hátíðarhelgi sem hún er orðin ár hvert eiga líka skilið miklar þakkir. Verum stolt af bænum okkar og njótum samverunnar um helgina.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir