Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, verður sett formlega á Miðbæjartorgi í kvöld.
Dagskráin á torginu hefst kl. 20. Þar verður tilkynnt um val á bæjarlistamanni ársins og umhverfisverðlaun verða veitt. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setur hátíðina og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar leikur.
Gengið verður í skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi yfir í Ullarnesbrekkur þar sem tendraður verður varðeldur og sunginn brekkusöngur.
Dagskráin hófst í gær með vel heppnuðum unglingadansleik í Hlégarði. Í morgun mættu síðan 134 fjögurra ára börn á leiksýningu í boði Bókasafns Mosfellsbæjar þar sem Möguleikhúsið sýndi verkið Alli Nalli og tunglið. Öllum börnum fæddum 2006 í Mosfellsbæ var boðið.
Dagskrá laugardagsins hefst kl. 9 í fyrramálið og stendur til kl. 23. Heilmikið verður um að vera við Íþróttamiðstöðina að Varmá allan daginn og verða sýningar- og sölubásar í íþróttahúsi opnir kl. 13-17. Danskir dagar og Bogomil Font verða í Hlégarði og tívolí á Hlégarðstúni. Útimarkaðir verða í Álafosskvos og á Mosskógum í Mosfellsdal. Einnig verður Afturelding með flóamarkað í vallarhúsi.
Hápunktur hátíðarinnar eru tónleikarnir annað kvöld þar sem fram koma frábærir listamenn á borð við Baggalút, Prófessorinn og Memfismafíuna, Hafdísi Huld, Ingó og Mosfellinginn Hreindísi Ylfu.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir