Þáttaskil verða í undirbúningi fyrirhugaðrar Borgarlínu, nýs hágæða samgöngukerfis sem fá mun sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, þegar vinnslutillögur um breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 og aðalskipulagi sveitarfélaganna sex sem standa að Borgarlínu verða kynntar á sameiginlegum fundi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í Salnum í Kópavogi, kl. 15 í dag.
Á fundinum verða kynntar tillögur að staðsetningu línuleiða og helstu stöðva Borgarlínu og skilgreind viðmið um uppbyggingu á áhrifasvæðum línunnar en gert er ráð fyrir að Borgarlínan verði allt að 57 km að lengd og að verkefnið verði áfangaskipt.