Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í gær fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 ásamt þriggja ára áætlun.
Heildartekjur á næsta ári eru áætlaðar rúmlega sjö milljarðar og veltufé frá rekstri er áætlað um 10% af heildartekjum. Leikskólagjöld munu ekki hækka á árinu 2016 en gert er ráð fyrir að aðrar gjaldskrár hækki í takt við verðlag. Þó munu gjaldskrár mötuneyta skóla og í frístund ekki hækka fyrr en næsta haust. Systkinaafsláttur verður reiknaður á frístundaávísanir þannig að barnmargar fjölskyldur njóta góðs af.
Íbúar Mosfellsbæjar eru nú um það bil 9.500 talsins og gera má ráð fyrir að talan fari yfir 10 þúsund á allra næstu misserum. Það sem hefur aðgreint íbúasamsetningu í Mosfellsbæ frá öðrum sveitarfélögum er lægri meðalaldur en gengur og gerist og skýrist það með miklum barnafjölda. Gera má þó ráð fyrir því að meðalaldurinn hækki skart þar sem fæddum börnum er að fækka. Það má sjá skýrt með færri börnum sem koma í leikskóla bæjarins strax á næsta ári.
Skuldaviðmið bæjarins í hlutfalli við tekjur eru áætlað um 115% í lok árs 2016 og er því vel innan viðmiðunarmarka sem sett eru í sveitarstjórnarlögum. Áætlunin gerir ráð fyrir að útsvarsprósenta og álagningarhlutföll fasteignagjalda verði óbreytt.
Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir tímabilið 2016-2019 má finna í heild sinni á vef Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði