Í dag hlaut ólympíufarinn og Mosfellingurinn Erna Sóley Gunnarsdóttir kúluvarpari, sem er fyrst kvenna til að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum í kúluvarpi, styrk úr sjóði fyrir afreksíþróttafólk í Mosfellsbæ. Það var Erla Edvardsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar Mosfellsbæjar sem veitti Ernu styrkinn fyrir hönd Mosfellsbæjar. Aðeins fimm Íslendingar eiga keppnisrétt á Ólympíuleikunum í ár.
Erna Sóley sem er 24 ára setti Íslandsmet í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands á Akureyri í sumar þegar hún kastaði kúlunni 17,91 metra. Að sögn Ernu hefur hún haft það að markmiði í 12 ár að keppa á Ólympíuleikum. Markmiðið í París er að kasta yfir 18 metra og einnig að verða ein af 12 efstu til að komast í úrslit. „Ég þekki flesta mótherjana og hef keppt við þær áður. Ég hlakka mikið til að mæta þeim í París þann 8. ágúst“ segir Erna Sóley.
Styrkurinn sem Mosfellsbær veitir Ernu Sóleyju vegna afreks hennar að komast á Ólympíuleikana er 500.000 kr. en við sama tilefni veitti uppeldisfélag hennar Afturelding afreksstyrk að sömu upphæð.
Markmið Mosfellsbæjar er að styðja enn frekar við afreksíþróttafólk sem á lögheimili í Mosfellsbæ og hafa hlotið styrk úr afrekssjóði ÍSÍ. Styrkurinn tekur ekki til flokkaíþrótta.