Nýlega undirrituðu Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Guðmundur Davíðsson oddviti Kjósarhrepps endurnýjun samstarfssamninga sveitarfélaganna um þjónustu sem Fjölskyldusvið Mosfellsbæjar innir af hendi til íbúa Kjósarhrepps.
Starfsmenn sviðsins veita íbúum Kjósarhrepps félagslega ráðgjöf og annast undirbúning og afgreiðslu umsókna um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð, félagslega heimaþjónustu, ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, félagslega liðveislu og önnur þau verkefni sem lögin kveða á um, í samræmi við reglur Kjósarhrepps, eftir því sem við á.
Fjölskyldusvið og fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar fara með málefni fatlaðra íbúa Kjósarhrepps og sinna skyldum Kjósarhrepps samkvæmt barnaverndarlögum, annast bakvaktir í barnaverndarmálum auk þess að eiga samstarf við Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um bakvaktir í málum þar sem heimilisofbeldi á sér stað.
Á myndinni eru: Guðmundur Davíðsson oddviti Kjósarhrepps og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, að baki þeim eru Berglind Ósk B. Filippíudóttir deildarstjóri barnaverndar og ráðgjafadeildar, Unnur V. Ingólfsdóttir framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs og Vibeke Þ. Þorbjörnsdóttir deildarstjóri búsetu- og þjónustudeildar.