Skólar í Mosfellsbæ verða settir á morgun og setjast um 1740 grunnskólanemendur á skólabekk eftir sumarleyfi, þar af 820 í Varmárskóla.
Eins og flest vita hafa margháttaðar endurbætur og viðhald á húsakosti Varmárskóla staðið yfir frá því í júní, eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins. Rakaskemmd byggingarefni hafa verið fjarlægð úr kennslurýmum undir leiðsögn EFLU og er endurnýjun þeirra því sem næst lokið. Næstu helgar verða nýttar til þess að klára þau afmörkuðu verkefni sem eftir eru. Á meðan á því stendur hefur EFLA lagt til hefðbundnar mótvægisaðgerðir í skólabyggingunum sem verður fylgt í millitíðinni sem felast annars vegar í auknum þrifum og hins vegar í daglegri loftun.
Fyrsta áfanga endurnýjunar á þökum Varmárskóla er lokið. Gluggaskipti, sem ekki voru hluti af viðbrögðum við rakaskemmdum heldur hluti af hefðbundnu viðhaldi skólahúsnæðisins, frestast um nokkrar vikur vegna tafa á afhendingu nýju glugganna. Þeir verða því endurnýjaðir í vetrarfríinu, dagana 24. – 28. október.
Öllum námsgögnum sem geymd voru í bókageymslu í kjallara yngri deildar hefur verið fargað. Í einni stofu voru bólstraðir stóla með svampi í setu og var þeim jafnframt fargað, samkvæmt ráðgjöf EFLU.
Í dag standa yfir alþrif á húsum Varmárskóla og eru þau í höndum fyrirtækisins AÞ-þrif sem er sérhæft í þrifum að loknum framkvæmdum af þessum toga.
Heildarskimun skólahúsnæðis Mosfellsbæjar og loftgæðamælingar
Á fundi bæjarráðs í dag var samþykkt að ganga til samninga við annars vegar verkfræðistofuna EFLU og hins vegar við Orbicon um frekari úttektavinnu og heildarskimun á skólahúsnæði Mosfellsbæjar auk loftgæðamælinga. Ástæða þess að samþykkt var að ganga til samninga við tvo lægstbjóðendur er sú að það gerir Mosfellsbæ kleift að fá verkefnið unnið hraðar en ella. Þessi vinna byggir á einróma samþykkt frá 735. fundi bæjarstjórnar þann 20. mars sl. þar sem umhverfissviði var falið að leita tilboða í ofangreinda vinnu.
Nánar um framkvæmdirnar
Verktakar við framkvæmdirnar í Varmárskóla í sumar voru ÁS-Smíði ehf., Ístak hf. og Kappar ehf. og Pétur og Hákon ehf. Starfsmenn þriggja fyrstu fyrirtækjanna hafa setið námskeið og tileinkað sér viðeigandi verkferla í vinnu við rakaskemmda byggingarhluta. Endurbætur og viðhald Varmarskóla í sumar voru byggðar annars vegar á úttekt Verksýnar varðandi almennt viðhald og endurbætur á eldri byggingum og hins vegar á heildarúttekt EFLU sem beindist sérstaklega að rakaskemmdum og mælingum á skemmdum byggingarefnum.
Dagleg verkefnisstjórnun var í höndum umhverfissviðs Mosfellsbæjar og voru Verksýn og EFLA til ráðgjafar við allar framkvæmdir, röðun þeirra og leiðbeiningar um vinnubrögð á rakaskemmdum svæðum og þeim stöðum þar sem örveruvöxtur hafði greinst.
Framkvæmdunum er nú í öllum meginatriðum lokið og er nánar greint frá helstu verkþáttum við skólann hér að neðan, bæði loknum og óloknum.
Varmárskóli – eldri deild
- Skemmt byggingarefni í eldhúsi hefur verið fjarlægt og gólfefni og veggefni alfarið endurnýjuð.
- Í heimilisfræðistofu er viðgerð lokið en þar var raki í útvegg og undir dúk.
- Viðgerðum er lokið í bókasafni og starfsmannaálmu en þar var fjarlægt veggefni ásamt gólfefni og hvoru tveggja endurnýjað.
- Unnið verður að hreinsun og tiltekt á þakrými í vetur og loftleki þéttur.
- Nokkrar staðbundnar viðgerðir á rakasvæðum eru eftir í aðalbyggingu og verða þær kláraðar næstu helgar fram á haustið. Ber þar helst að nefna svæði við innganga, sem eru hefðbundin veikleika svæði í öllum byggingum en hvorki hluti af kennslurými skólans né svæði sem kalla á víðtækar aðgerðir.
Varmárskóli – yngri deild
- Þakviðgerðum er lokið samkvæmt viðhaldsáætlun ársins og verið að ganga frá þakgluggum þessa dagana.
- Þakrými yfir austurálmu verður hreinsað og loftleki þéttur í haust.
- Verið er að loka vinnupöllum við starfsmannaálmu og tryggja að börn hafi ekki aðgengi að þeim. Vinna verður í gangi við glugga ásamt múrviðgerðum og málningu næstu vikur.
- Byggingarefni á salerni á fyrstu hæð hafa verið endurnýjuð en tengingar vaska og salerna og uppsetning hurða lýkur um eða eftir komandi helgi.
- Allar rakaskemmdir í kjallara hafa verið lagaðar nema á einum stað sem er við útvegg í rými skólahljómsveitarinnar. Það verður lagfært í haust í samvinnu skólastjórnenda og stjórnanda skólahljómsveitar til að lágmarka truflun á starfi hljómsveitarinnar.
- Bókasafn verður að sama skapi tekið í gegn á haustmánuðum í samráði við skólastjórnendur til að lágmarka truflun á skólastarfi.
- Starfsmannaálma og skrifstofurými verða kláruð í vetur í samvinnu við skólastjórnendur. Komið hefur verið í veg fyrir leka að utan og starfsrýmið verður lagað að innan í haust.
- Nokkrar staðbundnar viðgerðir á rakasvæðum eru eftir um húsið og verða þær kláraðar næstu helgar fram á haustið undir leiðsögn EFLU.
Brúarland
- Úttekt og sýnatöku lauk í ágúst en sá hluti heildarúttektarskýrslu sem fjalla mun um Brúarland hefur ekki enn verið ritaður. Þess í stað hefur tími EFLU verði nýttur til eftirlits, ráðgjafar og reglubundins mats á framkvæmd endurbóta og viðgerða á húsnæði Varmárskóla.
- Þó svo að ritun úttektarskýrslu sé ekki lokið liggur sjálf úttektin, þ.e. mat á húsnæðinu og úrbótatillögur til skemmri og lengri tíma fyrir í öllum meginatriðum.
- Byggingaefnasýni eru komin til Náttúrufræðistofnunar Íslands og bíður EFLA eftir niðurstöðu greininga.
- Þrátt fyrir að niðurstöður úr sýnatöku liggi ekki fyrir, var í samstarfi við EFLU strax ráðist í aðgerðir í skólastofu á neðstu hæð þar sem mælst hafði hækkaður raki í veggjum.
- Ístak var í falið að steinslípa veggi í skólastofu á fyrstu hæð og er þeirri vinnu lokið. Nú stendur yfir málning stofunnar og verður þeirri framkvæmd lokið á morgun föstudaginn 23. ágúst.
- Ístak var einnig falið úrbætur á þaki. Búið er að fjarlægja skemmdir í loftaklæðningu í risi og unnið er að enduruppbyggingu, en fyrirhugað er að það klárist næstu daga. Unnið verður að hreinsun og tiltekt á þakrými í haust og loftleki þéttur. Í risi er takmörkuð skólastarfsemi samkvæmt tilmælum eldvarnareftirlits Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þegar húsnæðið var endurnýjað í heild sinni árið 2009 fyrir framhaldsskólann voru brunavarnir á efstu hæð miðaðar við börn á framhaldsskólaaldri og stafa tilmæli eldvarnaeftirlitsins af því.
Lausar stofur
- Til samræmis við áhættumat og ráðgjöf EFLU hefur vinnu við útskiptingu rakaskemmdra byggingarefna í lausum stofum ekki hafist. Vegna umfangs endurbóta og viðhaldsverkefna í Varmárskóla varð ljóst í lok júlí að flóknustu aðgerðirnar væru á aðalbyggingum skólans og áhersla lögð á að ljúka við þær.
- Fram kom á kynningarfundum á heildarúttekt EFLU að ekki hefðu verið tekið sýni í lausum stofum þar sem talið var ljóst á hvaða svæðum þyrfti að endurnýja byggingarefni. Þannig eru nokkur svæði merkt til endurnýjunar og unnið verður að því um helgar í haust. Það verkefni verður sem fyrr unnið í náinni samvinnu umhverfissviðs, verktaka sem nú eru lausir úr öðrum verkefnum í Varmárskóla, EFLU og skólastjórnenda.
- Ekki er útilokað að smávægileg röskun geti orðið á skólastarfi í kringum framkvæmdir á lausum stofum en til staðar er áætlun til að bregðast við slíku.