Sýningaropnun Guðlaugar Drafnar Gunnarsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar.
Föstudaginn 28. febrúar 2014 kl. 17:00 – 19:00 verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2, einkasýning Guðlaugar Drafnar Gunnarsdóttur undir heitinu ,Vorið, kæri vinur. Guðlaug sýnir ný verk, fuglateikningar á plexígleri og stór náttúrutengd málverk unnin í olíu á striga.
VIRTUS styður listamanninn við gerð þessarar sýningar.
Sýning Guðlaugar er opin á afgreiðslutíma Bókasafns Mosfellsbæjar kl. 12:00 – 18:00 virka daga og 12:00 – 15:00 á laugardögum.
Sýningin stendur til 29. mars 2014.
Aðgangur ókeypis.
Um sýninguna segir Hermann Stefánsson rithöfundur:
„Hið fagra er satt, hið sanna fagurt,“ orti nítjándu aldar ljóðskáldið John Keats. Ekki er víst að heimurinn hafi enn náð utan um þessa róttæku hugmynd, enda segir mörg hefðin þvert á móti að hið fagra sé alltaf lygi og sannleikurinn hráslagalegur og ljótur. Í verkum sínum leitast Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir við að fanga fegurð sem er sannleikur, miðla sannleika sem er fagur.
Þetta eru örlát verk í fegurð sinni og sannleika, þau stíga bjóðandi fram til áhorfandans, hnippa í hann og minna á eitthvað sem varir. Fegurð þeirra er sönn en ekki endilega raunsæ, sannleikur þeirra er fagur en án þess að vera boðun sem bundin er tíma. Verkin eru upphafin í þeim skilningi að þau eru ekki haldin neinni lotningu gagnvart núinu, þau virða ekki tímann sem æðandi framrás í sífelldu uppnámi yfir andartakinu heldur horfa þau til allrar eilífðar, tímaleysis og varanleika. Hér er engin trú á skyndilausnum samtímans, verkin leitast við að hafa uppi á manneskjunni í kjarna sínum, stilla henni upp andspænis náttúrunni í sínum botnlausu víddum og algjöru kyrrð. Þetta eru ekki heðfbundin náttúrumálverk og heldur ekki nákvæmnisrealismi né heldur expressjónískir tjáningaröfgar, uppreisn þeirra er margbrotnari en svo. Kannski mætti kenna verkin við einskonar nýrómantík en þau eiga sér sitt eigið svæði. Þetta eru myndir af náttúru og dýrum sem eru ekki endilega til. Það bregður fyrir hreyfingu sem er svo algerlega ósegjanleg að í hugann kemur tónlist fremur en óhlutbundin hugsun og miklu fremur en konsept og vígorð.
Það augljósa er sjaldan nefnt en vert er að nefna þá mögnuðu staðreynd að tónlist er í eðli sínu ósýnileg. Tónlist er ósýnileg. Það heyrist ekkert í hreyfingu þótt svo kunni oft að virðast.
Lag eftir lag af litum til að ná fram ósegjanlegri hreyfingu sem er skyldust tónlist, hreyfingu sem er svo lifandi að það er sem maður heyri þyt eða hvin. Myndlist Guðlaugar Drafnar nær áhorfandanum þar sem hann á þess ekki von, þar sem manneskjan stendur augliti til auglitis við skepnu, þar sem hún horfir niður í hyldýpi neðan himinbláma, á skurðarpunkti hins algerlega einfalda og hins margsamsetta og flókna, frammi fyrir aðvífandi himni, í náttúru sem gæti ekki verið til. Og þó. Þar glittir í rautt í fljótandi, grófu svörtu, undir hárfínum ljósbrigðum skýja í algerum óendanleika sem virðast æða að manni og eiga mikilvægt erindi. Fókusinn ruglar skynjun áhorfandans. Hestur stendur á ljómandi fold, fullkomlega eðlilegur, næstum mennskur, en með ávæningi af draumi, og í bakgrunni er myrkur sem er svartara en nokkur þjóðsaga. Fuglar. Einfaldar, tærar, naktar plexíteikningar af fuglum. Þeir eru hvítir, en að baki þeirra líða svartir skuggafuglar eftir veggjunum, sköpunarverk ljóssins, fuglar eru hljóðfæri sem sólin spilar á. Strá fjúka og sýna fram á að hvað sem kapphlaupi skjaldbökunnar og Akkilesar líður er hreyfing möguleg og hún er ævarandi; náttúran er ætíð í fjarveru manna og hins manngerða og líklega er það tónlist fremur en vindur sem bærir stráin, allavega eitthvað af meiði sannleikans.
Þetta eru stórbrotin verk. Þau eru á sama tíma ljóðræn og stórlynd, orðlaus og ábúðarfull, hæversk og hofmóðug, ærslafull og sorgmædd, einlæg, tvíeggjuð og tær, djúpvitur og barnsleg. Þú ert einhvers staðar grunlaus á gangi, á leiðinni að kaupa í matinn eða að fara með klukkuna þína í viðgerð, og hefur ekki veitt árstíðaskiptum athygli lengi, ekki tekið eftir sólargangi, vindum, sjávarföllum, fuglum, skepnum, tungli, stjörnum, skýjafari, neinu, þú ert bara á gangi, alveg grunlaus. Þá er pikkað í öxlina á þér og þú heyrir sagt: „Vorið, kæri vinur“.
Tengt efni
Listamarkaður í desember 2024
Listasalur Mosfellsbæjar kallar eftir listafólki til að taka þátt í jólamarkaði 2024.
Nafnasamkeppni Listasalar Mosfellsbæjar
Listasalur Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum fyrir sýningarárið 2025 - Umsóknarfrestur til 8. júní 2024
Umsóknarfrestur er til og með 8. júní 2024.