Breytingarnar eru liður í að ná fram því markmiði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bæta þjónustu og fjölga þannig notendum. Einföldun leiðakerfis og aukin tíðni ferða eru mikilvægt skref í þá átt að gera Strætó að ferðamáta sem er samkeppnishæfur við aðrar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Þær breytingar sem snúa að Mosfellsbæ eru m.a. að leið 15 mun aka lengur á kvöldin og ekki verður lengur dregið úr ferðatíðni á sumrin eins og verið hefur síðustu ár. Leið 6 mun hætta að keyra upp í Mosfellsbæ, en í staðinn mun leið 7 keyra frá Egilshöll og upp í Mosfellsbæ og tengjast Helgafellshverfi. Þannig verður unnt að tryggja þjónustu við það hverfi. Næturakstur á völdum leiðum um helgar.
Að sögn Bryndísar Haraldsdóttur, fulltrúa Mosfellsbæjar í stjórn Strætó bs. er enn unnið að því að leggja mat á það hvernig væri unnt að auka þjónustu við íbúa Leirvogstungu.Þar eru þrír kostir í mati. Í fyrsta lagi að leið 7 keyri inn í Leirvogstungu, í öðru lagi að leið 57 keyri í gegnum hverfið í stað þess að stoppa á gatnamótunum við Vesturlandsveg og í þriðja lagi að koma á svokallaðri pöntunarþjónustu. Niðurstaða þessarar skoðunar mun líta dagsins ljós á næstu vikum.
„Ég er afskaplega ánægð að það skuli hafa verið samþykkt í stjórn Strætó að auka þjónustuna hér í Mosfellsbæ. Við þurftum að hafa fyrir því að ná því fram. Efling og þróun almenningssamgangna er eitt af stóru sameiginlegu verkefnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Mikill árangur hefur náðst á síðustu misserum og árið 2016 ferðuðust um 45 þúsund manns með Strætó daglega. Sá árangur sem við erum nú að ná við að efla strætisvagnasamgöngur í Mosfellsbæ eru hluti af góðu samtali okkar við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu innan stjórnar Strætó.” sagði Bryndís Haraldsdóttir.