Opnuð hefur verið ný vegtenging milli Aðaltúns og Flugumýrar sem hefur í för með sér verulegar samgöngubætur fyrir Hlíðartúnshverfi.
Hinn nýi vegur tengir Hlíðartúnshverfið beint við hringtorg á mótum Vesturlandsvegar og Skarhólabrautar og eykur því umferðaröryggi til muna.
Áður var tenging úr Hlíðartúnshverfi beint inn á Vesturlandsveg þar sem vinstri beygja var bönnuð og þurftu vegfarendur sem ætluðu í átt til Reykjavíkur að fara fyrst upp að næsta hringtorgi, við Langatanga, og fara þar heilan hring. Því gefur að skilja að hin nýja vegtenging bætir verulega samgöngur til og frá hverfinu.
“Vegtengingin hefur verið á dagskrá um nokkurt skeið og hafa íbúar hverfisins lagt áherslu á nauðsyn hennar,” segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. “Því er það mikið gleðiefni að hún sé nú komin í notkun enda stefnir Mosfellsbær ávallt að því að tryggja umferðaröryggi innan sveitarfélagsins.”
„Svo er gaman að bæta því við að nýjasta mannvirkið í Mofellsbæ, þessi vegtenging, liggur einmitt við hliðina á elsta mannvirki bæjarins, Lágafellshúsinu, sem byggt var árið 1884,“ bætir Haraldur við.
Jóhanna B. Hansen bæjarverkfræðingur, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Sæunn Andrésdóttir, eigandi Loftorku, og Agnar Loftsson verkstjóri hjá Loftorku.