Á næstu dögum munu verktakar á vegum Mosfellsbæjar hefja vinnu við að skipta út öllum kvikasilfursljósgjöfum í bænum. Breytingin er í samræmi við umhverfisstefnu bæjarins og hefur í för með sér meiri sparnað á orku. Þetta eru fyrstu skrefin í svokallaðri LED væðingu, en henni fylgja nokkrir kostir fyrir bæjarbúa:
- Betri og jafnari lýsing í bænum, með mjúkri (2.700K) birtu í hverfum, en bjartari (3.000K) á stofn- og tengibrautum
- Betri litaendurgjöf og þar með hlýlegra og öruggara umhverfi
- Breytilegri birtu yfir lýsingartímann, þar sem lýsing yfir miðnóttina er minni
- Umtalsverður sparnaður í orkunotkun og minna viðhaldi
LED væðing í Mosfellsbæ mun taka nokkur ár. Áhrifa hennar mun samt gæta strax í vetur, í bættri lýsingu, á svæðum sem merkt eru með grænum punktum á myndinni.
Unnið verður að uppsetningu LED-lýsingar jafnt og þétt næstu árin en næsta stóra breytingin er á árinu 2026, þegar birtunni verður stýrt yfir lýsingartímann.
Að verkefninu loknu munu bæjarbúar búa við hagkvæma og jafna lýsingu, með góðri litaendurgjöf, sem er stýrt í samræmi við þörf, uppfyllir kröfur um öryggi og umhverfisstefnu og veldur minni ljósmengun.