Þann 1. mars voru 25 ár liðin frá því að bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar fluttu í húsnæði sitt í Kjarna.
Fyrir þann tíma hafði starfsemin lengst af verið í Hlégarði en var þegar þarna var komið við sögu einnig með starfsemi í Þverholti 3 þar sem félagsþjónustan, skólaskrifstofan og heilbrigðiseftirlitið voru til húsa.
Það var því kærkomið fyrir stækkandi bæjarfélag að koma allri starfsemi bæjarskrifstofa undir sama þak en þess má geta að bókasafnið flutti árið 1995 úr Markholti 2 í Kjarna.
Í tilefni dagsins var haldið kaffisamsæti bæjarstjórnar og starfsmanna bæjarskrifstofa áður en gengið var til reglubundinnar dagskrár bæjarstjórnar.
Á myndinni eru Pétur Lockton fjármálastjóri sem hefur unnið í 25 ár á bæjarskrifstofunum þann 1. apríl næstkomandi, Anna Sigríður Guðnadóttir forseti bæjarstjórnar, Unnur Ingólfsdóttir sem var félagsmálastjóri og síðar sviðsstjóri í 34 ár og leit í heimsókn þennan dag, Jóhanna Magnúsdóttir deildarstjóri grunnskóla og Gunnhildur Sæmundsdóttir starfandi sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs sem báðar störfuðu hjá Mosfellsbæ fyrir 25 árum.