Bæjarskrifstofa Mosfellsbæjar tekur þátt í Góðverkadögum sem verða haldnir um land allt dagana 20. til 24. febrúar.
Verkefnið byggist á gamalli hefð skáta um að láta gott af sér leiða með því að gera að minnsta kosti eitt góðverk á dag. Á Góðverkadögum eru landsmenn allir hvattir til athafna og umhugsunar um að láta gott af sér leiða, sýna náungakærleik, vináttu, hjálpa öðrum og gera góðverk.
Góðverk gleðja
Góðverk eru þeirrar náttúru að þau fjölga sér á ógnarhraða, gerendum, þiggjendum og öllum sem nálægt þeim standa til gleði og ánægju.
Velvildin og vináttan sem felst í að rétta öðrum hjálparhönd, óumbeðið og án skilyrða er dýpri og sannari en almenn hjálpsemi eða dagleg aðstoð – við köllum það góðverk.
Góðverk þurfa ekki að vera stór til að skipta máli því það er hugurinn og frumkvæðið sem máli skipta.
Umbunin getur falist í þakkarorðum eða einlægu brosi þess sem þiggur, en ríkulegasta umbunin er þó eigin vellíðan yfir að hafa orðið að liði – unnið góðverk.
Starfsmenn Bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar láta ekki sitt eftir liggja og munu taka þátt í Góðverkadögunum af heilum hug. Allir starfsmenn hafa aðgang að svokallaðri Góðverkabók þar sem hægt er að skrifa inn í góðverk hvers dags, þeir geta hrósað samstarfsfólki með því að skrifa hrós á miða og setja í skál á kaffistofunum.
Góðverkadagur skáta
Skátar um allan heim hafa haldið 22. febrúar hátíðlegan, dagurinn er fæðingadagur Baden Powell stofnanda skátahreyfingarinnar og er
erlendis kallaður Thinking day. Íslenskir skátar vilja láta athafnir fylgja hugsunum og því köllum við 22. febrúar Góðverkadaginn.
Allir skátar gera að minnsta kosti eitt góðverk á dag alla daga ársins, en Góðverkadagana viljum við einnig nýta til að hvetja aðra til umhugsunar og athafna um að láta gott af sér leiða og gera góðverk.