Stórglæsileg bæjarhátíð Í túninu heima verður haldin um helgina næstkomandi.
Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þess ber að geta að hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra. Á fimmtudegi skreyta bæjarbúar hverfin sín með sínum lit en Mosfellsbæ er skipt upp í fjóra hluta þar sem hver hluti hefur sinn sérstaka lit.
Þekktir dagskráliðir verða að venju í boði eins og ullarpartý og markaðsstemmningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleikar á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball.
Frítt í strætó, sund og Gljúfrastein
Frítt verður í strætóleiðir 7, 15 og 27 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima. Þá verður einnig frítt í sundlaugar bæjarins sem og á Gljúfrastein á laugardeginum.
Tindahlaup og Fellahringur
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og íþróttatengdir viðburðir eru nokkrir. Má þar nefna hið árlega Tindahlaup sem er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Fellin í kringum Mosfellsbæ, nálægðin við náttúru og þéttbýli gera hlaupið einstakt og aðlaðandi fyrir hlaupara. Hægt er að næla sér í sæmdarheitið Tindahöfðinginn en til þess þarf hlaupari að hlaupa allar fjórar vegalengdir hlaupsins, safna tindum og hljóta viðurkenningu og titilinn Tindahöfðingi.
Fellahringurinn fer fram á fimmtudagskvöldið en um er að ræða fjallahjólamót þar sem hjólað er um stíga innan Mosfellsbæjar. Í boði eru tvær vegalengdir, 15 km og 29 km. Fellahringurinn var haldinn í fyrsta skiptið í fyrra og tókst framar vonum.
Á Tungubökkum fer fram gríðarlega fjölmennt fótboltamót Aftureldingar og Weetos fyrir 6. og 7. flokk karla og kvenna.
Mosfellingar bjóða heim
Kjúklingafestival fer fram að Varmá og að sögn Hjalta Úrsus verða grilluð mörg hundruð kíló af kjúklingi á mettíma.
Sérstaða bæjarhátíðarinnar felst svo í heimboðum Mosfellinga í garðana sína. Víða verður boðið upp á metnaðarfulla dagskrá og notalega stemningu.
Margt verður fyrir börnin en meðal þeirra sem sækja hátíðina heim er Ronja Ræningjadóttir, Karíus og Baktus, Leikhópurinn Lotta og álfabörnin Þorri og Þura.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir