Ásgarður Handverkstæði var stofnað fyrir 20. árum í Lækjarbotnum ofan við Lögbergsbrekku.
Árið 2003 flutti Ásgarður í Álafosskvosina í Mosfellsbæ. Af því tilefni ætlar Ásgarður að fagna tímamótunum með margvíslegum hætti.
Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Ásgarðs unnið af fullum krafti við að smíða leiktæki, sem eru í stækkaðri mynd af þeim leikföngum sem eru framleidd í Ásgarði. Þetta eru kindur, hestar, kýr, kolkrabbar, drekahestur og dráttarvél.
Föstudaginn 30. ágúst kl. 11:00 munu Ásgarður og Íslandsbanki færa Mosfellsbæ leiktæki að gjöf. Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ mun ásamt börnum úr grunnskólum bæjarins taka við tækjunum í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum þar sem þau munu skemmta gestum og gangandi um ókomna tíð. Íslandsbanki styrkir verkefnið og munu fulltrúar íslandsbanka ásamt Georg færa börnunum gjafir.
Ævintýragarðurinn er langtímaverkefni sem Mosfellsbær réðst í á 20 ára kaupstaðarafmæli sínu árið 2007. Mikil grunnvinna hefur átt sér stað í gróðri og lagningu stíga. Svokölluð skátaleiktæki voru sett í garðinn fyrr á þessu ári og verða Ágarðsleiktækin skemmtileg og einstök viðbót í Ævintýragarðinn.
Laugardaginn 31. ágúst kl. 13:00 – 18:00 verður Ásgarður með opið hús þar sem starfsmenn Ásgarðs sýna sitt fallega handverk og einnig mun útivinnu hópurinn leiðbeina gestum hvernig búa á til bekki og borð. Ásgarður verður með eldsmiðju þar sem eldsmiðir munu sýna hvernig naglar og krókar voru gerðir í gamla daga.
Verslun Ásgarðs verður opin og er tilvalið að versla jólagjafirnar tímanlega í ár.
Öll börn fá afmælisblöðru merktar Ásgarði.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir