Við skólaslit síðastliðið vor veitti Foreldrafélag Varmárskóla hvatningarverðlaun í fyrsta skipti starfsmanni sem þótti hafa skarað fram úr í starfi.
Leitað var eftir ábendingum og mörg nöfn nefnd enda hefur skólinn á að skipa frábærum hópi starfsfólks. Að þessu sinni féllu hvatningarverðlaunin í hlut Árna Jóns Hannessonar kennara á miðstigi sem býr yfir 35 ára kennslureynslu.
Árni brennur fyrir náttúrufræðigreinum og nýsköpun og er óhræddur að stíga út fyrir kassann og prófa nýja hluti. Árni hefur gefið út námsefni og þróað fjölbreytta fræðslu fyrir bráðgera nemendur þar sem farið er í stærðfræði, stjörnufræði, náttúrufræði, efna- og eðlisfræði, íslensku, nýjustu rannsóknir í vísindum og nýsköpun. Árni er vel að þessu kominn og mikill fengur fyrir allt skólasamfélagið að fá að njóta krafta hans.
Einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar, Inga Elín Kristinsdóttir leirlistarkona, var fengin til samstarfs um hönnun á hvatningarverðlaununum.
Á myndinni má sjá Erlu Birnu Birgisdóttur, fulltrúa foreldrafélagsins, ásamt nemendum afhenda Árna verðlaunin.
Tengt efni
Fræðsla um starfsemi bæjarins fyrir 5. bekk Varmárskóla
Fjölbreytt og skemmtilegt starf í Tröllabæ
Einstakt samstarf í baráttunni gegn einelti
Hátt í 200 ungmenni úr Varmárskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ unnu saman í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti, á vel heppnuðu nemendaþingi um einelti.