Mosfellsbær hefur undanfarin ár unnið að bættu aðgengi allra að opinberum svæðum í sveitarfélaginu.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Öryrkjabandalag Íslands hafa gert með sér sérstakt samkomulag um að hvetja sveitarfélög til að skipa aðgengisfulltrúa til að sinna betur aðgengismálum. Í því samkomulagi er nánar kveðið á um útfærslu átaksins og þeim stuðningi sem hver stofnun veitir sveitarfélaginu til að bæta aðgengi fyrir alla.
Mosfellsbær hefur nú tekið þeirri áskorun og skipað sérstakan aðgengisfulltrúa sem hefur það hlutverk að vinna markvisst að úrbótum í aðgengismálum í sveitarfélaginu, sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi opinberra staða og hlutast til um úrbætur.
Mosfellsbær vill af þessu tilefni vekja athygli á því að almenningur getur komið ábendingum á framfæri um bætt aðgengi á opinberum stöðum í sveitarfélaginu í ábendingakerfinu sem er á vef Mosfellsbæjar með því að velja flokkinn „Aðgengi“ í fellilistanum í skrefi 2.
Íbúar eru hvattir til að hafa augun opin og koma með ábendingar um bætt aðgengi þar sem því er ábótavant.
Íbúar geta einnig sent ábendingu á nýskipaðan aðgengisfulltrúa Mosfellsbæjar, Maríu Rakel Magnúsdóttur, á netfangið maria.rakel[hja]mos.is
Guðjón Sigurðsson, verkefnastjóri ÖBÍ og María Rakel Magnúsdóttir, aðgengisfulltrúi Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði