Að vanda var haldið upp á þjóðhátíðardaginn með glæsibrag í Mosfellsbæ.
Dagskrá þjóðahátíðardagsins hófst á hátíðarguðþjónustu í Lágafellskirkju undir stjórn sr. Hennings Emils Magnússonar. Sigurður Hreiðar, mosfellingur og fyrrverandi ritstjóri, flutti hátíðarræðu og stóðu skátar frá skátafélaginu Mosverjar heiðursvörð við kirkjuna.
Í Varmárlaug var haldið upp á 60 ára vígsluafmæli laugarinnar og 60 ára afmæli Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar, en hljómsveitin lék í fyrsta skipti opinberlega við vígslu laugarinnar og hefur nú starfað óslitið í 60 ár. Við sama tækifæri fór fram útnefning heiðursborgara Mosfellsbæjar. Birgir D. Sveinsson kennari, fyrrum skólastjóri Varmárskóla og fyrrum stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar til 40 ár hlaut nafnbótina fyrir hans mikla framlag til tónlistar- og menningarlífs sem og uppeldismála í Mosfellsbæ.
Við Kjarna var boðið upp á sérstakar lýðveldisbollakökur í tilefni af 80 ára afmæli íslenska lýðveldisisns og þar var hægt að nálgast bókina Fjallkonan – „Þú ert móðir vor kær“, en hvoru tveggja var gjöf forsætisráðuneytisins til landsmanna.
Skátarnir leiddu skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Hlégarði þar sem hátíðardagskráin fór fram að viðstöddum miklum fjölda bæjarbúa. Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti skrúðgöngunni með lúðrablæstri. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Regína Ásvaldsdóttir fór með hátíðarræðuna og fjallkonan var Ástrós Hind Rúnarsdóttir sem flutti Litla Ísland eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum. Ástrós hefur nýlokið prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og var umfjöllunarefni lokaverkefnis hennar í bókmenntafræðinni ritstörf Ólafar. Meðfram námi sínu hefur Ástrós starfað í Bókasafni Mosfellsbæjar.
Bolli og Bjalla úr Stundinni okkar kynntu fjölskyldudagskrá sem var lífleg að vanda. Leikfélag Mosfellssveitar bauð upp á atriði úr Línu Langsokk, Árni Beinteinn og Sylvía sungu og dönsuðu og börnin tóku virkan þátt. Þá mætti Bangsímon frá Leikhópnum Lottu og VÆB bræðurnir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi. Á Hlégarðstúninu voru hoppukastalar og fleira í boði fyrir börn.
Árlegt og glæsilegt kaffihlaðborð Aftureldingar var vel sótt að vanda og keppt var um titilinn Sterkasti maður Íslands á Hlégarðstúni sem er árleg keppni skipulögð af Hjalta Árnasyni betur þekktum sem Hjalta Úrsus.
Það var sannarlega líf og fjör í bænum á þjóðhátíð og veðrið hið ágætasta.
Tengt efni
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos
Tveimur farsælum samráðsfundum lokið