Uppbygging nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar
Mosfellsbæjar auglýsir eftir rekstraraðilum og samstarfsaðilum
Fyrirhugað er að byggja nýja 1600 m2 þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá fyrir starfsemi Aftureldingar og Mosfellsbæjar. Á svæðinu er heimilt að byggja allt að 3.000 m2 byggingu og telur bærinn því að tækifæri sé til uppbyggingar allt að 1400 m2 viðbótarrýmis.
Mosfellsbær kannar áhuga einstaka rekstraraðila á því að vera með rekstur í viðbótarrými hússins auk þess að kanna áhuga fyrirtækja og annarra aðila til samstarfs í tengslum við uppbyggingu þjónustu- og aðkomubyggingarinnar.
Á íþróttasvæðinu að Varmá má í dag finna Varmárlaug, íþróttasali Aftureldingar, fjölnotahúsið Fellið, fimleikahús, frjálsíþróttaaðstöðu, gervigrasvöll, lyftingarsali o.fl.
Markmið Mosfellsbæjar með byggingu þjónustu- og aðkomubyggingarinnar er að bæta þjónustu á íþróttasvæðinu að Varmá og auka nýtingarmöguleika eldri mannvirkja. Byggingin skal m.a. rúma nýja aðkomu Íþróttamiðstöðvarinnar, búningsklefa, félagsaðstöðu, geymslur, starfsmannaaðstöðu auk þess sem stuðlað skal að bættri aðkomu og aðgengi fyrir alla gesti.
Ný þarfagreining vegna byggingar þjónustu- og aðkomubyggingar leiddi það helst í ljós að aukin búningsaðstaða að Varmá er aðkallandi, auk aðstöðu fyrir gesti og þá sérstaklega barnvænnar aðstöðu. Þá kemur fram í greiningunni að vinnu- og fundaraðstöðu fyrir þjálfara, starfsfólk, íþróttakennara og aðra starfsemi sé ábótavant í dag. Einnig er metið mjög mikilvægt að bæta styrktaraðstöðu fyrir íþróttafólk. Fyrir öllum þessum þáttum þarf því að gera ráð fyrir í nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu sem gert er ráð fyrir að verði um 1600 m2 líkt og áður segir.
Rétt er að geta þess að frekari uppbygging og þróun á íþrótta- og útivistarsvæðinu að Varmá er fyrirhuguð.
Mosfellsbær leitar eftir :
- Rekstraraðilum sem eru áhugasamir um rekstur á svæðinu sem samræmist skipulagslegum forsendum íþróttasvæðisins að Varmá.
- Áhugasömum aðila til samstarfs um byggingu viðbótarrýma og eftir atvikum þeirra rýma sem sveitarfélagið hyggst nýta, allt í samræmi við það sem fram kemur um afmörkun verkefnisins hér að neðan.
Tillaga
Áhugasamir skili gögnum í gegnum Mínar síður Mosfellsbæjar og er skilafrestur gagna 31. október 2024.
Afmörkun verkefnisins
Mosfellsbær áformar að nýta að hámarki 1.600 m2 fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Viðbyggingin þarf að uppfylla skilgreindar þarfir sem m.a. má finna í fyrirliggjandi þarfagreiningu.
Heildarfermetrafjöldi mannvirkis innan lóðar getur orðið allt að 3.000 m2 sem felur í sér að mögulegt er að byggja allt að 1.400 m2 til viðbótar við það rými sem sveitarfélagið hefur þörf fyrir sem unnt er að nýta fyrir aðra starfsemi eða útleigu.
Íþróttasvæðið að Varmá er skilgreint sem samfélagsþjónusta í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem felur m.a. í sér að heimil starfsemi í mögulegu viðbótarrými getur m.a. verið skrifstofur, starfsemi eða þjónusta er tengist íþróttum, hreyfingu og heilsu með einum eða öðrum hætti. Þá þarf starfsemi í byggingunni að falla að lýðheilsu- og forvarnastefnu Mosfellsbæjar.
Til að hjálpa til við afmörkun verkefnisins, og að ákveða endanlega stærð nýs mannvirkis, vill bærinn eiga samtal við alla rekstraraðila sem kunna að vera áhugasamir um atvinnurekstur í húsinu. Að auki vill sveitarfélagið kanna áhuga fyrirtækja og annarra aðila til samstarfs um uppbyggingu viðbótarrýma auk þeirra rýma sem sveitarfélagið hyggst nýta í þjónustu- og aðkomubyggingunni.
Markmið er að uppbyggingu þjónustu- og aðkomubyggingar verði lokið að vori árið 2027.
Skipulagsleg staða og hönnun
Svæðið er í gildandi aðalskipulagi skilgreint sem samfélagsþjónusta þar sem á svæðinu eru grunnskólar, sundlaug og önnur íþróttamannvirki. Íþróttasvæðið er deiliskipulagt og fylgir því byggingarreitur nýrrar þjónustubyggingar við aðkomu íþróttamannvirkja. Skipulag sýnir byggingarreit um 900 m2 að grunnfleti sem rúma átti þjónustubyggingu sem samrýmdist fyrri þarfagreiningu sveitarfélagsins. Fyrir liggur að hugmyndir og tillögur geta kallað á breytt deiliskipulag og skipulagsferli sem því fylgir. Þá getur bygging stækkað til suðvesturs og –austurs eða um eina hæð.
Til er hönnun á 1.200 m2 þjónustu- og aðkomubyggingu sem uppfærð var árið 2022. Þá hönnun má hafa til hliðsjónar við framsetningu tillögu en rétt er að hafa í hug að þarfagreining hefur verið uppfærð sem felur í sér að aðlaga þarf hönnun byggingarinnar að breyttum þörfum. Það er þó ekki skilyrði fyrir samstarfi að uppbygging byggist á fyrirliggjandi hönnun þar sem til greina kemur að hanna nýtt mannvirki frá grunni.
Teikningar af eldri byggingu sem var áætluð 1.280 fm2
Fyrirvari:
Ekki er verið að óska eftir þátttöku í útboði, heldur er eingöngu um að ræða könnun Mosfellsbæjar á mögulegum áhuga markaðsaðila á því að taka þátt í umræddri uppbyggingu og þá með hvaða hætti með vísan til 45. gr. laga um opinber innkaup. Vert er að benda á að þátttaka í þessari könnun er ekki forsenda þess að taka þátt í innkaupaferli eða útboði sem mögulega tekur við í framhaldinu.
Atriði sem þurfa að koma í tillögu
Þess er sérstaklega óskað að í tillögu áhugasamra aðila komi eftirfarandi atriði fram:
- Í tilviki áhugasamra rekstraraðila:
- Þá starfsemi sem viðkomandi hefur áhuga á að reka í slíkri byggingu og á hvaða tímum dags hámarksálag þeirrar starfsemi sé líklegt auk þess sem gera þarf grein fyrir því hvernig sú starfsemi samrýmist skipulagslegri stöðu svæðisins og lýðheilsustefnu Mosfellsbæjar.
- Hversu stóru rými þörf er á fyrir viðkomandi.
- Hver væri áætluð bílastæðaþörf þeirrar starfsemi.
- Hver yrði áætlaður starfsmannafjöldi þeirrar starfsemi.
- Í tilviki áhugasamra aðila um uppbyggingu mannvirkisins og hugsanlegan rekstur:
- Heildarumfang verksins þar á meðal stærð viðbótarrýmis og áætlaður framkvæmdatími þess.
- Gróf kostnaðaráætlun framkvæmdarinnar.
- Fyrirkomulag eignarhalds þjónustu- og aðkomubyggingar, þ.e. miðast tillaga við að aðili eigi mannvirkið og leigi það til Mosfellsbæjar eða að framkvæmdin verði eign bæjarins.
- Upplýsingar um mögulegt viðbótarými sem þátttakandi hyggist eiga og reka.
- Hvaða starfsemi aðili sjái fyrir sér að verði í ætluðu viðbótarrými og á hvaða tímum dags hámarksálag þeirrar starfsemi sé líklegt auk þess sem gera þarf grein fyrir því hvernig sú starfsemi samrýmist skipulagslegri stöðu svæðisins og lýðheilsustefnu Mosfellsbæjar.
- Hver væri áætluð bílastæðaþörf þeirrar starfsemi.
- Hver yrði áætlaður starfsmannafjöldi þeirrar starfsemi.
- Hver verði ásýnd mannvirkisins, þ.e. verður byggt á þeirri hönnun sem þegar liggur fyrir eða leggur aðili til að mannvirkið verði hannað upp á nýtt.
- Með hvaða hætti verður tryggt að aðgengi verði fyrir alla.
- Byggingarsaga og rekstrarsaga aðila eftir því sem við á.
Tengiliður
Allar nánari upplýsingar veitir Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir skrifstofustjóri skrifstofu umbóta og þróunar í gegnum netfangið olafia@mos.is og í síma 698-4725.