Alls bárust um 40 tilnefningar að þessu sinni og sá umhverfisnefnd Mosfellsbæjar um að heimsækja þau svæði sem tilnefnd voru og velja úr tilnefningum.
Ásgarður handverkstæði
Hlýtur viðurkenningu fyrir að vera umhverfisvænt fyrirtæki sem leggur áherslu á endurnýtingu og notkun umhverfisvænna hráefna. Umhverfi fyrirtækisins er mjög snyrtilegt og upplífgandi, enda prýða útskornir munir verkstæðisins Mosfellsbæ víðsvegar um bæinn.
Júlíana Grímsdóttir og Þórarinn Magnússon
Íbúar að Helgalandi 8 í Mosfellsbæ hljóta viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn. Garðurinn þykir sérlega fallegur og vel hirtur, og sérstök áhersla hefur verið lögð á að gera aðkomu að garðinum sem glæsilegasta.
Edda Gísladóttir
Íbúi að Hlíðartúni 12 hlýtur viðurkenningu fyrir einstök ræktunarstörf um áratuga skeið. Edda hefur ræktað stóran og fallegan garð sem státar af fjölbreyttum gróðri og góðu úrvali af nytjaplöntum. Umhirða gróðurs er til fyrirmyndar og lóðinni sérlega vel við haldið.