Framkvæmdir við nýja körfuboltavelli við Lágafellsskóla og Varmárskóla sem kosnir voru inn í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó hefjast nú á vormánuðum. Um er að ræða fullbúna körfuboltavelli með mottuundirlagi.
Vinnu er lokið við öflun á þeim búnað sem þarf til og fá verktaka í verkið. Ekki var unnt að hefja framkvæmdir á meðan á skólahaldi stendur til að raska ekki skólastarfi og tryggja öryggi á skólalóðum. Því munu framkvæmdir hefjast um leið og skólahaldi lýkur í byrjun júní.
Vellirnir verða staðsettir þar sem aðgengi er gott fyrir almenning, en jafnframt tekið tillit til nærliggjandi íbúðarhúsa við val á staðsetningu.
Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum verði lokið í júlí 2022.