Í tengslum við uppbyggingu nýrra húsa við Bjarkarholt stendur yfir vinna við allar aðveitulagnir norðan götunnar.
Áhersla er lögð á að röskun á starfsemi við götuna verði sem minnst á framkvæmdatímanum enda um að ræða bæði leið strætisvagna og verslunargötu. Til að lágmarka röskunina verður verkið unnið í vel afmörkuðum verkhlutum.
Vegna aðstæðna fyrir framan nýbyggingu Bjarkarholts 8-20 hefur verið tekin ákvörðun að hefja framkvæmdir á fjórða og fimmta verkhluta. Gert er ráð fyrir að fjórði verkhluti muni hefjast í byrjun mars.
Fjórði verkhluti: Til að tryggja aðgengi að Háholti 14 verður lögð bráðabirgða innkeyrsla til hliðar við núverandi innkeyrslu.
Fimmti verkhluti: Til að umferð um Bjarkarholt gangi sem greiðast fyrir sig verður lögð bráðabirgða hjáleið yfir gangstétt.
Gert er ráð fyrir að þessum verkhlutum verði að fullu lokið á 4-5 vikum gangi allt samkvæmt áætlun.
Íbúar eru sem fyrr hvattir til þess að sýna framkvæmdunum skilning og jafnframt að koma á framfæri ábendingum til umhverfissviðs á framkvæmdatímanum ef þörf krefur.