Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í dag þann 21. desember að heimila umhverfissviði Mosfellsbæjar að bjóða út jarðvinnu og fergingu á aðalvelli og frjálsíþróttavelli á íþróttasvæðinu að Varmá.
Unnið er að hönnun breytinga á aðalvelli knattspyrnudeildar og frjálsíþróttasvæði Aftureldingar að Varmá. Landsig hefur verið viðvarandi á núverandi svæði og því er nauðsynlegt að fergja áður en farið er í endanlegan yfirborðsfrágang. Fergingartími er áætlaður um 4-6 mánuðir. Á fergingartíma eru síritar settir upp til að fylgjast með landhæðarbreytingum og að þeim loknum verður hægt að hefja annan áfanga framkvæmda.
Í fyrsta áfanga er lagt til að grafið verði fyrir öllum uppbyggingaráföngum og umfram jarðvegur fjarlægður. Samhliða því þarf að keyra fyllingu ásamt eins meters þykku fargi á knattspyrnuvöllinn (svæði 1 og 3 á mynd). Fargið þarf að standa allt þar til landið er hætt að hreyfast.
Í öðrum áfanga verður umframefni fargs á aðalvelli nýtt til að fergja á frjálsíþróttasvæði en þessi verktilhögun er viðhöfð til þess að minnka kostnað, mengun og akstur vörubifreiða um íþróttasvæðið að Varmá.
Eftir að farg hefur verið tekið af aðalvelli og sett á frjálsíþróttasvæði er hægt að vinna að fullnaðarfrágangi knattspyrnusvæðis. Vinna við fullnaðarfrágang frjálsíþróttasvæðis getur farið fram eftir að fargi hefur verið létt, en áætlað er að það verði um sumarið 2025.
Einungis er farið fram á að boðin verði út 1. áfangi framkvæmda sem er jarðvinna og ferging á aðalvelli og frjálsíþróttavelli á íþróttasvæðinu að Varmá.