Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur heimilað umhverfissviði að undirbúa útboð á innréttingu fyrstu hæðar Kvíslarskóla í kjölfar þeirra endurbóta sem þar hafa farið fram.
Unnið verður að innréttingu hæðarinnar samhliða vinnu við endurnýjun glugga sem þegar hefur verið boðin út. Vinnu við endurnýjun aðalinngangs skólans og salerniskjarna er lokið.
Endurbætur Kvíslarskóla sem farið hafa fram síðastliðið ár veittu tækifæri til þess að uppfæra húsnæði miðað við nýjustu hönnunarleiðbeiningar og reglugerðir og var það tækifæri nýtt til hins ýtrasta.
Áætlað er að þessum framkvæmdum verði lokið fyrir byrjun næsta skólaárs í ágúst 2023.