Vegagerð er hafin í nýju atvinnuhverfinu Korputúni sem rísa mun við Vesturlandsveg á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Svæðið tilheyrir Blikastaðalandi þar sem fyrirhuguð er umfangsmikil uppbygging nýs íbúðahverfis. Reitir fasteignafélag er eigandi þróunarsvæðisins og fer fyrir uppbyggingunni. Nú þegar hafa forsvarsmenn Bónus lýst yfir vilja til þess að verslun félagsins verði á svæðinu og þá hefur JYSK samið við Reiti um kaup á lóð þar sem er gert ráð fyrir ríflega 17 þúsund fermetra byrggingarmagni. Hverfið verður á stærð við Skeifuna og hefur rúmlega 20% af því verið ráðstafað og er fyrsta vistvottaða atvinnusvæðið á Íslandi. Korputún er skipulagt út frá þörfum fólks og náttúrunnar en ekki síður út frá hefðbundnum þáttum, s.s. aðgengi, vöruflutningum og sýnileika.
„Ég fagna því að við séum að hefja uppbyggingu á þessu nýja atvinnusvæði í Mosfellsbæ. Það styrkir samfélagið hér að fá ný fyrirtæki á svæðið, bæði hvað varðar þjónustu við íbúa en ekki síst að fjölga atvinnutækifærum. Við eigum í mjög góðu samstarfi við Reiti um þróun atvinnusvæðisins og höfum væntingar um að fá hingað öflug og fjölbreytt fyrirtæki. Það er mikið fagnaðarefni að nú þegar hafi tvö öflug fyrirtæki tryggt sér húsnæði á svæðinu, JYSK og ný verslun Bónus í Korputúni sem verður þjónustubót fyrir íbúa Mosfellsbæjar.“
– Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.