Hátíðardagskrá var í Hlégarði sunnudaginn 27. ágúst í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima þar sem meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar.
Það var Övar Jóhannsson formaður umhverfisnefndar sem afhenti umhverfisviðurkenningarnar. Venju samkvæmt voru veittar viðurkenningar fyrir fallegan einkagarð, fjölbýlishúsagarð með leikvelli, fyrirtæki til fyrirmyndar, plokkara ársins og snyrtilegustu götuna ásamt þeirri nýbreytni að velja tré ársins. Umhverfisnefnd fór meðal annars í vettvangsferð, ræddi við einstaklinga og heimsótti fyrirtæki í tengslum við valið.
Viðurkenningar 2023 hlutu:
Mosskógar og Dalsgarður sem fyrirtæki til fyrirmyndar. Mosskógar fyrir flott framtak við rekstur útimarkaðar og góða aðstöðu fyrir ferðamenn og tók Jón Jóhannsson á móti viðurkenningunni. Dalsgarður fyrir framfarir og áherslu á ræktun blóma, sumarblóma og umhverfismála og tók Gísli Jóhannsson á móti viðurkenningunni.
Viðurkenningu fyrir fallegt fjölbýli hlaut Vefarastræti 16-22 fyrir fallegan og vel hirtan garð með snyrtilegum leikvelli. Formaður húsfélagsins Kristján Imsland tók við viðurkenningunni.
Hjarðarland 6 hlaut viðurkenningu fyrir fallegan garð við einbýlishús þar sem garðurinn er fjölbreyttur, fallegur ævintýraheimur sem gaman er að skoða. Eigendunum Söru Rún Róbertsdóttur og Kristni Inga Hrafnssyni var veitt viðurkenningin.
Garðar Smárason fékk viðurkenningu sem plokkari ársins. Garðar hefur plokkað síðan 2007 og fer á hverjum morgni og tínir upp bæði rusl í miklu magni og skilagjaldskyldar umbúðir.
Tré ársins er af tegundinni Sitkagreini – Picea sitchensis og stendur við Álafossveg 10. Ekki er vitað mikið um hver gróðursetti það eða hvenær, en samkvæmt greiningu hefur það líklegast verið um 1950. Tréið var upprunalega á einkalóð en tilheyrir núna bæjarlandi, það er 17,5m og þykir ekki hávaxið en það er 71cm í þvermál sem þykir mjög svert fyrir þessa tegund hér á landi. Tréið er fallegt, heilbrigt og hefur alla möguleika til að stækka talsvert.
Mosfellsbær óskar öllum sem fengu umhverfisviðurkenningu 2023 innilega til hamingju.
Á myndinni eru: Övar Jóhannsson formaður umhverfisnefndar, Garðar Smárason plokkari, Jón Jóhannsson Mosskógum, Gísli Jóhannsson Dalsgarði, Kristján Imsland formaður húsfélagsins Vefarastræti 16-22 ásamt Söru Rún Róbertsdóttur og Kristni Inga Hrafnssyni Hjarðarlandi 6
Mosskógar
Dalsgarður
Vefarastræti 16-22
Hjarðarland 6
Tré ársins
Tengt efni
Umhverfisviðurkenningar 2024 afhentar á setningarathöfn bæjarhátíðar
Hátíðardagskrá var í Hlégarði fimmtudaginn 29. ágúst þar sem meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar.
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2024
Umhverfisnefnd óskar eftir tilnefningum frá almenningi vegna umhverfisviðurkenninga Mosfellsbæjar fyrir árið 2024.
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023 - Hægt að senda tilnefningar til og með 31. júlí
Umhverfisnefnd óskar eftir tilnefningum til umhverfisviðurkenninga Mosfellsbæjar fyrir árið 2023.