Miðvikudaginn 12. júní voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Í sjóðinn geta sótt kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við skóla/frístund í Mosfellsbæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og frístundasvið í samstarfi við skóla.
Veittir eru styrkir einu sinni á ári úr sjóðnum. Heildarframlag sjóðsins árið 2024 eru þrjár milljónir.
Að þessu sinni hlutu eftirfarandi verkefni styrk úr sjóðnum:
- Verkleg vísindi, Varmárskóli
Verkefnið mun auka verklega kennslu í náttúrugreinum í Varmárskóla með fjölbreyttu námsefni sem auðveldar kennurum að nálgast viðfangsefnin á skapandi hátt. Með þessum styrk að upphæð 500.000 kr. mun Varmárskóli fjárfesta í námsefni sem eflir kennslu í eðlisfræði og stærðfræði. - Námskeið í markmiðasetningu fyrir elstu nemendur grunnskólans, félagsmiðstöðin Bólið í samstarfi við náms- og starfsráðgjafa grunnskólanna
Bjóðið verðu upp á námskeið í sjálfseflingu og markmiðasetningu fyrir nemendur í 10. bekk. Markmiðið er að ungmenni vinni með eigin gildi, styrkleika, áhugasvið, drauma og framtíðarsýn. Inntak verkefnisins snýr að andlegri og félagslegri vellíðan ungmenna og fellur bæði undir forvörn og heilsueflingu. Verkefnið hlaut 600.000 kr. styrk. - Söngur á allra vörum, leikskólinn Hlíð
Verkefnið mun efla notkun tónlistar til að stuðla að málþroska ungra barna. Tekin verður upp söngbók leikskólans bæði í hljóð- og myndformi og efnið gert aðgengilegt starfsmönnum, foreldrum og öðrum áhugasömum. Styrkur að upphæð 250.000 kr. er hugsaður til að hefja vinnuna og koma verkefninu af stað. - STEAM kennsla á öll stig grunnskólans, Helgafellsskóli
Í verkefninu verður innleidd og efld STEAM-nálgun í kennslu á öllum stigum grunnskólans, og gæti hún náð til 5 ára leikskólabarna. Styrkur að upphæð 700.000 kr. verður nýttur til að kaupa bæði tæki og námsefni til að efla kennara og nemendur í STEAM kennslu og hvetja til skapandi og gagnrýninnar hugsunar. - Aukin útikennsla, Leirvogstunguskóli
Í verkefninu verður útbúin aðstaða á leikskólalóð til að auka útinám með því að skapa útieldhús, vatnabraut og drullumallsvæði. Markmið verkefnisins er að auka útikennslu, leikefni og leikaðstæður í útiveru. Styrkurinn að upphæð kr. 200.000 er hugsaður til að koma verkefninu af stað í vinnslu innan skólans í samstarfi við foreldrasamfélagið. - Flipp Flopp, Kvíslarskóli
Verkefnið mun styðja Kvíslarskóla við að taka mikilvægt skref til að efla raungreinar með kaupum á smásjám, stuðningi við kennara og þróun kennsluhátta. Flipp flopp verkefnið, sem hófst fyrir þremur árum, hefur bætt kennsluhætti og stuðlað að innleiðingu leiðsagnarnáms í skólanum. Verkefnið fékk styrk að upphæð 400.000 kr. - Frá fræi til afurðar, leikskólinn Hlíð
Verkefnið mun veita börnum og starfsfólki tækifæri til að sá fræjum og fylgjast með þeim vaxa og dafna. Þannig fá þau að upplifa hringrás náttúrunnar og sjá hvernig eitt lítið fræ getur orðið að afurð, kryddi, grænmeti, ávexti eða plöntu sem þau geta síðar notið. Styrkurinn 350.000 kr. er hugsaður til að koma verkefninu af stað með t.d. gróðurkössum á lóðinni.
Nafn sjóðsins Klörusjóður er til heiðurs Klöru Klængsdóttur (1920-2011). Klara útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1939 og hóf sama ár kennslu við Brúarlandsskóla hér í bæ og starfaði hún alla sína starfsævi sem kennari í Mosfellsbæ.
Tengt efni
Styrkir til verkefna á sviði velferðarmála fyrir árið 2025
Umsókn um styrk til náms, verkfæra- og tækjakaupa 2024
Umsóknarfrestur er til og með 20. október 2024.
Erna Sóley afreksíþróttamaður 2024